Meiri losun við Litla-Hrút en í fyrri gosum

Brennisteinsdíoxíð (SO2) er eitt helsta mengunarefnið sem losnar nú frá …
Brennisteinsdíoxíð (SO2) er eitt helsta mengunarefnið sem losnar nú frá gosinu við Litla-Hrút, en það getur haft slæm áhrif á öndunarfæri. mbl.is/Eyþór Árnason

Eldgosið við Litla-Hrút losar um 5.000-12.000 tonn af brennisteinsdíoxíði (SO2) á sólarhring og milli 7.000-15.000 tonn af koltvíoxíði (CO2) að mati Þorvalds Þórðarsonar, prófessors í eldfjallafræði við Háskóla Íslands. Þá segir hann losunina líklegast vera miklu meiri þar sem hluti þess breytist síðan í brennisteinssýruagnir þegar efnið hvarfast við vatnseindir í andrúmsloftinu.

„Þetta er að gerast mjög hratt og losunin er í rauninni þessi móða sem við sjáum núna dreifast yfir Reykjanesskagann.“ Þorvaldur segir losun á gróðurhúsalofttegundum vera aðeins meiri í gosinu við Litla-Hrút, en á pari við það sem hún var í eldgosunum á svipuðum slóðum árin 2021 og 2022. „Það er aðeins meira að koma upp frá þessari kviku en gerði í eldgosinu árið 2022. Þegar mest gekk á þar þá voru þetta um tvö til fjögur þúsund tonn á dag af SO2, en frá því kom mun meira af CO2.“

Sara Barsotti, fagstjóri eldfjallavár hjá Veðurstofu Íslands, staðfestir að brennisteinsdíoxíð sé örlítið meira núna en mældist í eldgosunum á þessum slóðum undanfarin tvö ár. Magn SO2 er mælt með DOA-fjarkönnunarbúnaði og í eldgosinu við Litla-Hrút hefur það mælst 30-130 kg/sek. Í eldgosinu við Fagradalsfjall árið 2021 var það 30-130 kg/sek.

Mengunin varir í einhvern tíma

Þorvaldur segir íbúa á höfuðborgarsvæðinu geta þurft að búa við mengun frá eldgosinu um nokkurn tíma á meðan gosmóðan berst þangað, en mengunin berist síðan til annarra landshluta þegar vindáttin breytist.

„Mín ágiskun er sú að það sé allavega vel yfir þúsund tonn á dag sem berast með skýjunum til byggða og svo verður um helmingurinn að brennisteinssýruögnum þannig það hefur án efa áhrif á loftgæðin.“ Brennisteinsdíoxíð (SO2) myndast m.a. við bruna jarðefnaeldsneytis og við ál- og járnblendiframleiðslu. Það losnar einnig í eldgosum og frá hverasvæðum. Efnið er eitt helsta loftmengunarefnið sem losnar nú við eldgosið við Litla-Hrút. Brennisteinssýra er heilsuspillandi og getur haft slæm áhrif á öndunarfæri.

„Það er alls ekki gott að anda að sér brennisteinsögnum og því síður til langs tíma. Þessi mengun verður eins í einhvern tíma og því er fólki ráðlagt að sofa ekki með opinn glugga á meðan það er mengun, því móðan smýgur inn alls staðar.“

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is/Eyþór Árnason
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert