Flestir sýna takmörkunum skilning

Svæðið er opið til kl. 18 í dag.
Svæðið er opið til kl. 18 í dag. mbl.is/Eyþór

Gönguleiðum að eldgosinu við Litla-Hrút verður lokað klukkan 18 í dag. Hægt verður að nálagst svæðið frá Suðurstrandarvegi í dag.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum. 

„Flestir sýna því skilning að aðgangur inn á gossvæðið er háður takmörkunum. Að mati lögreglustjóra er ekki forsvaranlegt að halda gönguleiðum opnum allan sólarhringinn. Af öryggisástæðum verður gönguleiðum frá Suðurstrandarvegi því lokað daglega kl. 18, eða fyrr eða seinna eftir atvikum, þegar opið er. Sú ákvörðun gildir á meðan gos stendur yfir við fjallið Litla Hrút. Vigdísarvallavegi verður lokað samhliða lokun gönguleiða,“ segir í tilkynningunni.

Á meðfylgjandi göngukorti má greinilega sjá merkt hættusvæði. Hættusvæðið er …
Á meðfylgjandi göngukorti má greinilega sjá merkt hættusvæði. Hættusvæðið er bannsvæði samkvæmt ákvörðun lögreglustjóra. Ljósmynd/Lögreglan

Fólk noti rykgrímur

Lögreglumenn, landverðir og sjúkraflutningamenn verða á svæðinu í dag. „Björgunarsveitir sinna útköllum á svæðinu en verða þar ekki að staðaldri. Fyrirkomulag eftirlits kallar á ábyrgða hegðun ferðamanna,“ segir í tilkynningunni.

Lögregla mælir með að fólk beri rykgrímur á svæðinu til að forðast mengun frá gróðureldum. Hún minnir á að ekki sé ráðlagt fyrir ákveðna hópa að fara að svæðinu vegna mengunar. 

„Þá er lögð áhersla á að ekki sé farið með börn á svæðið og að fólk með hjarta- eða lungnasjúkdóma gangi ekki að gosinu, eða þungaðar konur. Það er vegna hugsanlegrar gasmengunar en einnig vegna reyksins frá gróðureldum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert