Ansi mörg tonn af vatni á þremur vikum

Slökkvistarfi er ekki alfarið lokið og verður slökkviliðið enn með …
Slökkvistarfi er ekki alfarið lokið og verður slökkviliðið enn með viðveru á svæðinu til að koma í veg fyr­ir að gróðureld­ur komi upp aft­ur út frá nýj­um glæðum. mbl.is/Eyþór

Í dag eru þrjár vikur síðan eldgosið við Litla-Hrút hófst og síðan þá hefur slökkviliðið í Grindavík, ásamt öðrum, unnið nánast sleitulaust við að ráða niðurlögum gróðurelda á gosstöðvunum. Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grinda­vík, segist í samtali við mbl.is ekki hafa tölu á hversu mörg tonn af vatni hafi verið notuð til slökkvistarfa hingað til, en þau séu ansi mörg. 

Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri Grindavíkur.
Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri Grindavíkur. mbl.is/Eyþór

Eldgosið við Litla-Hrút hófst 10. júlí. Tveimur dögum bárust fréttir af miklum reyk við gosstöðvarnar vegna gróðurelda.

Það var svo ekki fyrr en í gær, 30. júlí, sem slökkviliðsmenn náðu að ráða niðurlögum á eldunum. Slökkvistarfi er þó ekki alfarið lokið og verður slökkviliðið enn með viðveru á svæðinu til að koma í veg fyr­ir að gróðureld­ur komi upp aft­ur út frá nýj­um glæðum.

Óx meðfram umfanginu 

„Þetta er langstærsta verkefni sem að mitt slökkvilið hefur þurft að kljást við,“ segir Einar og bætir við að umfangið sé mikið, bæði mannfrekt og skipulag hafi verið flókið. 

Þyrla Landhelgisgæslunnar aðstoðaði við slökkvistörf.
Þyrla Landhelgisgæslunnar aðstoðaði við slökkvistörf. mbl.is/Hákon

„Við höfum kallað til alls konar bjargir – alls konar tæki og tól. Við höfum þurft að hugsa út fyrir boxið og prófað alls konar aðferðir.“

Til að byrja með var þyrla Landhelgisgæslunnar fengin til að flytja vatn með skjólu og bamba að gosstöðvunum. Í hverjum bamba var um tonn af vatni og skjólan tók um tvö tonn af vatni.

„Því meira sem umfangið varð, því stærri aðferðir þurfti til,“ segir Einar en er leið á voru notaðir trukkar til að flytja vatn.

Stórir tankbílar voru notaðir til að flytja vatn að gosstöðvunum.
Stórir tankbílar voru notaðir til að flytja vatn að gosstöðvunum. mbl.is/Eyþór

Þeir stærstu fluttu um 18 tonn af vatni og samsvöruðu því 18 ferðum þyrlunnar með bamba.

„Við vorum með kannski 30 þúsund lítra í einu á tankbílum í fremstu röð, meðan við byrjuðum með eitt þúsund lítra.“

60 til 80 tonn á stærstu dögunum

Spurður hvort hann hafi tölu á því hversu margir lítrar af vatni hafi farið í slökkvistörf segist Einar ekki hafa náð að halda utan um það. 

„Ég hugsa að á stærstu dögunum hafi farið kannski 60 til 80 þúsund lítar á sólarhring, ef ég á að giska svona gróft,“ segir hann og bætir við að þá hafi um 30 til 35 manns verið að störfum. 

Hann segir að ákveðin áskorun hafi verið að manna slökkvistörfin vegna sumarleyfa og annarra verkefna. 

„En á móti kemur er að þessi geiri, slökkviliðsgeirinn, stendur vel saman. Við höfum ná að leita til liðanna, bæði á Suðurnesjum og Isavia til dæmis, og þá hef ég fengið menn frá Snæfellsnesinu og út um allt Suðurland, Reykjavík, Landsbjörg og víða að,“ segir Einar og nefnir að bíll frá Vík í Mýrdal hafi aðstoðað við gosstöðvarnar. 

Stund milli stríða.
Stund milli stríða. mbl.is/Hákon

„Mannahallæri hefur í raun ekki hamlað okkur neitt. Það sem var aðallega að hamla okkur í upphafi var að koma nógu miklu vatni inn eftir til að bleyta jarðveginn nógu mikið.“

„Skelfilegt“ að setja út á veðrið

Veðrið hefur ekki verið slökkvistörfum í hag en lítið hefur rignt á Reykjanesskaganum síðustu þrjár vikur. 

„Það er nú alveg skelfilegt að þurfa vera setja út á það að það sé sól og blíða og heitt úti. Það er mjög skrýtið.

Líkt og áður sagði lauk aðgerðum í gærkvöldi og segir Einar að nóttin hafi gengið vel.

„Við erum að keyra enn vakt sem keyrir meðfram línunni og er að fylla á vatnsbirgðir meðfram línunni á meðan gosið er,“ segir Einar. 

„Við erum farin að sjá fram á að geta tekið bara léttar eftirlitsferðir í dagvinnu og fylgst með og brugðist við ef eitthvað kemur upp á,“ segir Einar slökkviliðsstjóri að lokum. 

Mikinn reyk lagði um svæðið.
Mikinn reyk lagði um svæðið. mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert