„Það eiga allir að vita af þessu banni“

„Þetta er auðvitað ekki gott fordæmi,“ segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri …
„Þetta er auðvitað ekki gott fordæmi,“ segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á Suðurnesjum mun setja sig í samband við rekstraraðila þyrlnanna sem lentu inni á bannsvæði og skilgreindu hættusvæði á fjallinu Litla-Hrúti í gærkvöldi. Lögreglustjóri segir málið ekki einsdæmi.

„Þarna er skilgreint bannsvæði, við erum búin að vera með eldgos frá 10. júlí og það eiga allir að vita af þessu banni, ég tala nú ekki um þau sem reka þessi fyrirtæki og flugmenn á þeirra vegum,“ segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.

„Þetta er auðvitað ekki gott fordæmi.“

Lögreglan telur sig hafa upplýsingar um á vegum hvaða fyrirtækis þyrlurnar eru, en Úlfar vildi ekki fara nánar út í það. Samkvæmt upplýsingum mbl.is var ekki um þyrlur Norðurflugs að ræða.

Ekki í fyrsta sinn

Aðspurður segir Úlfar að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem þyrluflugmenn lenda á bannsvæði við gosstöðvarnar.

„Þetta er þriðja gos þannig að við höfum séð þetta áður.“

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.

Mjög sérstakt

Þá mátti litlu muna að illa færi þegar erlendur ferðamaður flaug á svifvæng fram af fjallinu við gossvöðvarnar í gær. Úlfar segir málið sérstakt.

„Það er auðvitað mjög sérstakt, eitthvað sem menn eiga ekki von á inni á þessu svæði. En þetta fór vel og hann er heill á húfi. Hann er auðvitað inni á bannsvæði þegar hann gerir þetta.“

Þá tekur hann fram að lokun við gosstöðvarnar hafi að öðru leyti gengið vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert