Engin virkni í Litla-Hrút frá því klukkan 15 í gær

Við Litla-Hrút.
Við Litla-Hrút. Mbl.is/Eythor Arnason

Virkni í eldgosinu við Litla-Hrút hefur legið niðri frá því klukkan 15 í gær.

„Við erum ekki alveg tilbúin að lýsa yfir goslokum því það hefur komið fyrir áður að það komi hlé og svo tekur það aftur við sér,“ segir Sigríður Kristjánsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is. 

Óróagröf sína það hvernig óróinn datt niður í bakgrunnsmörk klukkan 15 í gær og hefur verið við það mark síðan.

Sigríður bendir á að ekki séu til neinar reglur um það á hvaða tímapunkti hægt sé að ganga út frá því að gosinu sé lokið. Rétt sé þó að gefa því lengri tíma en 24 klukkustundir, og því má álykta að yfirlýst goslok yrðu í fyrsta lagi síðdegis. 

Opið inn að gossvæðinu til kukkan 18 í dag

Opið er inn á svæðið í dag frá Suðurstrandavegi, og þrátt fyrir að engin virkni mælist í gosinu verður gönguleiðum inn á svæðið áfram lokað klukkan 18 í kvöld. 

Alls gengu 924 inn að gosinu í gær, eftir Meradalaleið, og 608 eftir öðrum gönguleiðum. 

Útlit er fyrir hæga breytilega átt á svæðinu í dag og þá getur mengunin borist í ýmsar áttir, eða safnast saman nærri hrauninu, að því er fram kemur í spá verðurvaktar um gasdreifingu. 

Uppfært 08:55. Upprunalega kom fram að enginn órói hefði mælst frá því klukkan 3 í nótt. Það var rangt og hið rétta er að enginn órói hefur mælst frá því klukkan 15 í gær. Fréttin hefur verið leiðrétt með tilliti til þessa.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert