„Þetta er búið í bili“

Staðan kl. 13:21 þann 6. ágúst 2023.
Staðan kl. 13:21 þann 6. ágúst 2023. Skjáskot vefmyndavél mbl.is

Eldgosinu við Litla-Hrút er lokið, réttara sagt lauk því í gær. Taki virknin sig upp að nýju eftir þennan tímapunkt væri um að ræða nýtt eldgos. 

Þetta segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur í samtali við mbl.is. 

„Þetta er búið í bili, ég held það sé alveg óhætt að lýsa því yfir.“ Hann er hluti af því teymi sem heldur úti Facebook síðu Rannsóknarstofu í eldfjallafræði og náttúruvá, Háskóla Íslands, en þau birtu færslu fyrir skemmstu þar sem þau gáfu í skyn að goslok væru í höfn.

Var þar vitnað í það að Þorvaldur hafði af léttúð spáð því fyrir, í fjölmiðlum, að goslok yrðu laugardaginn 5. ágúst klukkan 07:37. Nú hefur komið á daginn að hann var nokkuð sannspár.

Líklega 2 til 3 eldgos í viðbót

Þorvaldur telur ósennilegt að gosið við Litla Hrút hafi verið lokahnykkurinn í atburðarásinni á Reykjanesskaganum sem hófst fyrir nokkrum árum.

„Mér þykir líklegra að við fáum annað gos á svipuðum slóðum í kjölfarið, jafnvel tvö eða þrjú í viðbót.“

Hann bendir á að þau eldgos sem orðið hafa á Reykjanesskaganum undanfarin ár, séu svokallaðir eldar.

Það er einkennandi fyrir elda að þeir eiga sér stað á línulegri reim, þannig fer af stað gos sem hleypir af stað næsta gosi og svo koll af kolli. Oft geta átt sér stað upp undir 8 eldgos á svipuðum slóðum. Dæmi um elda sem Íslendingar hafa upplifað eru Kröflueldarnir, Krýsuvíkureldar, Reykjaneseldar og jafnvel Surtseyjareldar. 

Eldgos af þessu tagi eru frábrugðin eldgosum sem verða í eldfjöllum á borð við Kötlu og Heklu, en það eru oftast einskiptisgos sem eru þó aflmeiri en eldarnir. 

Megum búast við árshvíld hið minnsta

Spurður hve langt sé í næsta gos, svara Þorvaldur á þann veg að hann telji að næsta gos verði ekki fyrr en eftir ár í fyrsta lagi, eða þá lengri tíma. 

„Það fer eftir því hve mikið innflæðið er. Það hefur orðið landsig þarna eftir að gosið hófst. Ef við sjáum að land fari að rísa aftur á þessu svæði þá má búast við því að kvikan sé farin að streyma inn að nýju. Það þarf náttúrulega að safna í sarpinn til að geta gosið á ný og það getur tekið tíma.“

Öll gosvirkni féll endanlega niður

Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands hefur einnig lýst yfir goslokum. 



Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert