Umferð minnkað eftir goshlé

Guðbrandur Örn Arnarson, segir umferð á gossvæðið hafa minnkað eftir …
Guðbrandur Örn Arnarson, segir umferð á gossvæðið hafa minnkað eftir að goshléi var lýst yfir. Samsett mynd

Guðbrandur Örn Arnarson, hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, segir umferð að gossvæðinu hafa minnkað eftir goshlé. Áhuginn virtist strax dvína um leið og ekki var rennandi hraun að sjá.

Guðbrandur segir verslunarmannahelgina hafa gengið vel fyrir sig og án stórslysa. Þó hafi þurft að leita að tveimur göngumönnum sem villtust af leið af gönguslóða. Ekki er heldur langt síðan að björgunarsveitarmenn þurftu að aðstoða göngumann sem örmagnaðist á gönguleið A.

Fundað um framhaldið

Hann segir að fundað verði um og í kringum næstu helgi til þess að ákveða framtíðarviðveru á svæðinu. „Um leið og við metum það þannig að það sé óhætt að hverfa úr þessari vöktun, þá gerum við það. Við megum heldur ekki gleyma því að við erum líka ábyrg fyrir restinni af Íslandi þar eru næg verkefni.“

Guðbrandur bendir á að senn fari að hausta og þá geti aðstæður breyst þegar veður verði vályndari. Sjálfur fór hann að gosstöðvunum í gær. „Ég kom í góðu veðri en fór heim í roki og rigningu. Bros var á hverju andliti á leið á gosstöðvar en minna um það á heimleiðinni, enda ekki allir jafn hrifnir af íslenskri rigningu.“

Ólíkar skoðanir í stórum samtökum 

Aðspurður segir hann að vissulega hafi björgunarsveitarmenn þjálfast vel í þessu viðbragði en þeir búi líka af áratuga reynslu. Hann segir björgunarsveitarmenn almennt káta með hvernig til hefur tekist.

„En að sjálfsögðu erum við stór samtök og ekki endilega allir sammála. Mætingin í þessi verkefni sýnir að mikill skilningur var á þessu meðal okkar félagsmanna. Því er hins vegar ekki að neita að þetta tekur á. Við erum með mjög stífa stefnu um að við séum ekki hið daglega viðbragð, við erum bakland hins daglega viðbragðs. Það er mikilvægt að það komi fram að til þess að björgunarsveitir séu ekki misnotaðar þá þarf að tryggja fjármagn til annarra viðbragðsaðila, lögreglu, sjúkraflutningafólks og slökkviliðs. Við eigum að tryggja slakann á meðan aðrir eru að ná vopnum sínum, en svo þarf að tryggja fjármagn til þess að við getum horfið af vettvangi.“

Gengur verr í góðæri

Hann segir enn ganga vel að fá nýliða í björgunarsveitastarf, þótt eðli sjálfboðaliðavinnu hafi breyst.

„Við höfum verið með stöðuga nýliðun þar sem að fólk verður sér úti um þessa frábæru þekkingu og reynslu sem að við búum að. Síðan fer fólk stundum áfram í starfinu eða í ferðaþjónustuna eða annað. Ég sé ekki eftir því að þjálfa upp fólk jafnvel þó það ílengist ekki en er alltaf þakklátur þegar fólk heldur áfram. Við erum með hundruð sem bætast við á hverju ári. Við erum rúmlega 6000 manna bakland fyrir samfélagið.“

Almennt segir hann að verr gangi góðæri að fá fólk í sjálfboðastarfið, því þá hafi fólk meira umleikis til að kaupa sér sínar eigin græjur og til þess að ferðast sjálfstætt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert