Elísabetarstígur orðinn að veruleika

Elísabet að afhenta Einari Þorsteinssyni öskju með undirskriftarlistanum.
Elísabet að afhenta Einari Þorsteinssyni öskju með undirskriftarlistanum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er í sjöunda himni og er svo þakklát,“ sagði rithöfundurinn Elísabet Jökulsdóttir við mbl.is en baráttumál hennar um að fá að nefna stíg í Vesturbænum eftir sér hefur nú borið árangur.

Elísabet var nýkomin úr Ráðhúsi Reykjavíkur þegar mbl.is náði tali af henni en þar afhenti hún Einari Þorsteinssyni, formanni borgarráðs, undirskriftarlista með nöfnum um 1.100 manna sem studdu hana í baráttunni um að fá að nefna stíginn Elísabetarstíg.

Voru eins og töfrabrögð hjá Einari

„Þetta voru eins og töfrabrögð hjá Einari. Hann bara smellti fingrum og sagði að þetta yrði að veruleika bara einn, tveir og þrír. Þegar ég vissi af þessum stíg þá fékk ég þá flugu í höfuðið að best væri að þessi stígur fengi nafnið Elísabetarstígur og nú er það orðið að veruleika. Ég og fjölmargir vinir mínir sem studdu mig í þessu erum svo glöð,“ sagði Elísabet við mbl.is en hún bjó á þessum slóðum í 30 ár en flutti þaðan fyrir þremur árum.

Stígurinn varð til á milli Hringbrautar og Sólvallagötu en verið er að reisa stórt hús á svokölluðum Bykó-reit sem margir hafa mótmælt enda þykir byggingin úr stíl við gamla töfrandi bæjarmynd.

Til stóð að nefna stíginn Hoffmannsstíg, eftir Pétri Hoffmann Salómonssyni, smábátasjómanni og rithöfundi. Það fór ekki vel í Elísabetu sem sagði að nóg sé til af götum eftir framliðnum körlum.

Stór stund að stígurinn megi heita eftir konu

Spurð hvort viðbrögð Einars Þorsteinssonar hafi komið henni á óvart segir Elísabet; „Já ég verð að segja það hann hafi lag á því að koma mér á óvart. Ég bjóst ekki við þessu. Ég býst náttúrulega alltaf við einhverjum töfrum en þetta var eitthvað sem var fram úr mínum villtustu draumum. Ég átti ekki von á því að þetta myndi ganga svona ljúft fyrir sig og að þetta yrði svo einfalt mál.

Ég er rosalega þakkát og snortin og þetta er stór stund að stígurinn megi heita eftir konu. Þetta gefur okkur konum byr undir báða vængi. Nú veit maður ekkert hvernig borgin mun líta út eftir smástund. Kannski verður Hringbrautin skírð eftir Þórunni Valdimarsdóttur og fleira í þeim dúr. Ég er að ryðja brautina,“ sagði sæl og glöð Elísabet Jökulsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert