„Þetta má bara ekki gerast“

Aðalsteinn Baldursson, verkalýðsleiðtogi á Húsavík, segir alveg ljóst að það …
Aðalsteinn Baldursson, verkalýðsleiðtogi á Húsavík, segir alveg ljóst að það sé mikill skjálfti í samfélaginu fyrir norðan vegna þessa máls. Samsett mynd/mbl.is/Sigurður Bogi/Hafþór Hreiðarsson

Þær fregnir að flugfélagið Ernir íhugi að hætta áætlunarflugi sínu milli Reykjavíkur og Húsavíkur um næstu mánaðamót hafa valdið miklum titringi fyrir norðan.

Aðalsteinn Baldursson, verkalýðsleiðtogi á Húsavík, segist skynja ótta og áhyggjur fólks ef af þessu verður en Ernir hefur haldið úti flugi frá Húsavík frá árinu 2012.

Síminn stoppar ekki

„Sá orðrómur er uppi um að flugfélagið Ernir sé að hætta flugi til Húsavíkur og síminn hefur vart stoppað hjá mér eftir að þetta spurðist út. Við hjá verkalýðsfélaginu Framsýn höfum haft frumkvæði að því að vinna með Erni og stjórnendum þess á hverjum tíma að láta þetta flug ganga og höfum allt frá upphafi komið að þessu og erum enn að,“ segir Aðalsteinn í samtali við mbl.is.

Aðalsteinn segir alveg ljóst að það sé mikill skjálfti í samfélaginu fyrir norðan vegna þessa máls.

„Þetta flug skiptir okkur alveg gríðarlega miklu máli á öllum sviðum. Ég er ekkert að ýkja með það að síminn hjá mér stoppar ekki vegna tengsla okkar við flugfélagið og afkomu okkar að rekstrinum í gegnum tíðina. Það eru allir að hringja.

Ég var að ræða við varaþingmann sem var að hringja í mig, þar á undan framkvæmdastjóra hjá stóru ferðaþjónustufyrirtæki á Húsavík, manni hjá flutningafyrirtæki og í einstaklingi sem á við veikindi að stríða og þarf að fara reglulega suður til Reykjavíkur í geislameðferð. Þetta má bara ekki gerast,“ segir Aðalsteinn.

Hvað ætla stjórnvöld að gera?

Verkalýðsleiðtoginn segist ásamt sínu fólki vera að vinna í þessu máli.

„Við höfum verið í dag og nótt í viðræðum og að kanna ýmsa hluti en það skal tekið fram að það er ekki búið að gefa það út að fluginu verði hætt. En þetta hefur spurst út og menn óttast að eitthvað sé í farvatninu. Þetta er svo mikilvæg samgönguleið fyrir okkur og það er bara tímaskekkja ef flugi til Húsavíkur verði hætt.

Stjórnvöld hafa komið að rekstri flugs á Íslandi nema til Húsavíkur sem er alveg stórmerkilegt. Þegar það gekk í gegn að stjórnvöld veittu Icelandair ríkisábyrgð á sínum tíma þá kom skýrsla frá Samkeppniseftirlitinu þar sem varað var við því önnur og minni flugfélög væru í hættu svo sem Ernir. Það er að koma á daginn og því spyr ég. Hvað ætla stjórnvöld að gera?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert