Bjarni: „Það má ávallt treysta á stjórnarandstöðuna“

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á Alþingi í kvöld.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á Alþingi í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, gagnrýndi stjórnarandstöðuna í ræðu sinni á Alþingi í kvöld. Benti hann á ósamræmi í skoðunum þingmanna stjórnarandstöðuflokkanna en fullyrðingar Bjarna féllu illa í kramið hjá formanni Flokks fólksins, sem hrópaði að ráðherra.

„Ísland er á fullri ferð. Ekkert Evrópuríki, sem tölur ná til, hafði til að mynda meiri hagvöxt á fyrri helmingi ársins – ekkert,“ sagði Bjarni í upphafi ræðu sinnar. Nefnir hann einnig hverfandi atvinnuleysi, miklum gangi í helstu atvinnugreinum og ekki síst sölu á íslenska fyrirtækinu Kerecis, upp á 200 milljarða króna.

„Þótt við eigum það til að einblína á allt það sem aflaga fer megum við ekki gleyma þeim framförum sem hér hafa orðið,“ sagði ráðherra. „Helsta verkefni okkar þennan þingveturinn og til næstu ára sé að styðja við endurheimt stöðugleika, sem muni verka eins og stökkpallur til enn frekari sóknar,“ sagði hann enn fremur.

Inga sæland: „Það er rangt“

Ráðherra kynnti fjárlagafrumvarp fyrir árið 2024 í gær. Í ræðu sinni bendir Bjarni á gagnrýni annarra þingmanna í kjölfar kynningar frumvarpsins – gagnrýni sem hann kallar „fasta liði“.

Hann hafði það eftir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, að stjórnvöld eyddu of miklu.  Benti hann jafnframt á að Ingu Sæland, formanni flokks fólksins, finnist of litlu eytt.

Inga hafði þó nokkuð um fullyrðingu Bjarna að segja og því hrópaði hún úr þingsal: „Það er rangt“.

Bjarni hélt áfram:

„Háttvirtur þingmaður Kristrún Frostadóttir vill hærri skatta, stærra ríki, til þess að auka tilfærslur og millifærslur. Og kenningin er auðvitað sú að það erum við stjórnmálamenn sem vitum best hvar peningarnir eiga heima. Svo eru það auðvitað aðrir þingmenn eins og háttvirtur þingmaður Björn Leví Gunnarsson sem mér sýnist boða það að hann skilji mest lítið í þessu öllu saman.“ 

Stjórnarandstaðan ekki sá stöðugleiki sem leitast er eftir

„Þetta er fólkið sem telur að það sé ríkisstjórnin sem sé ósamstíga. Hugsa sér,“ bætir Bjarni við og segir að þótt samfélagið sé á fleygiferð og efnahagur vaxandi séu önnur tregðulögmál að verkum á þinginu.

„Það má ávallt treysta á stjórnarandstöðuna. Þau eru stöðugt með allt á hornum sér. En það er ekki sá stöðugleiki sem við erum að leita eftir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert