„Verðum að klára verkefnið“

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar.
Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar. mbl.is/Arnþór

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri í Garðabæ, segir rétt að endurskilgreina að hluta til framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu úr samgöngusáttmálanum en Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, er þeirrar skoðunar að bíða þurfi með framkvæmdir að andvirði 100 milljarða króna þar sem nýtt kostnaðarmat er komið upp í 300 milljarða króna í stað 160 milljarða króna.

Fólk verður að sjá umbætur í samgöngumálum

„Bjarni talar um raunsæi og ég held að við séum sammála því en leiðin er auðvitað að við verðum að klára verkefnið og það gerum við með því að endurskilgreina það að hluta til og lengja það sem er raunsæi bæði varðandi fjármál og tæknilega,“ sagði Almar við mbl.is á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga.

„Við erum áfram um það að þetta verkefni njóti sammælis. Íbúum fjölgar á svæðinu. Við þurfum ekki bara stofnvegi heldur líka almenningssamgöngur og það verður að tvinna þetta saman. Raunsæið felst þá kannski í því að það þarf að gera þetta á lengra tíma en áður var áætlað.

Það var hugsað þannig að þetta væri búið árið 2034 það sem við erum með á borðinu núna og við hljótum að þurfa að lengja það í einhver tíu ár eða svo án þess að ég hafi það í einhverjum smáatriðum. Svo er mjög mikilvægt, og þá tala ég fyrir hönd okkar allra þótt ég komi úr Garðabæ, að fólkið okkar verður að finna fyrir og sjá umbætur í samgöngumálum. Það er svolítið mikilvægt að framvindan sé þannig að flestir á svæðinu upplifi sjálfir að við séum að gera eitthvað sem skiptir máli,“ sagði Almar.

Hætta á að samstaðan tapist

Almar segir að allir horfi á að verkefnið verði að hafa framgang og það skiptir máli að sáttmálinn gangi eftir.

„Það mun reyna á okkur að ná samstöðu. Þegar sáttmálin var gerður árið 2019 var mjög góð samstaða og allir undu glaðir við sitt. Þegar við förum að breyta forsendunum núna þá er hætta á því samstaðan tapist. Mér finnst við verða að einbeita okkur að því reyna að koma í veg fyrir það að rífast innbyrðis og láta verkefnið í heild njóta sammælis,“ segir Almar.

Spurður út borgarlínuna segir Almar; 

„Við erum í þeirri stöðu að við þurfum að hafa almenningssamgöngur. Við leysum ekki samgöngur alls þessa fólks sem er að flytja inn á svæðið og þeirra sem fyrir eru nema að gera þetta á fjölbreyttan hátt.

Varðandi almenningssamgöngurnar þá held ég að við þurfum að fara varlega. Það eru verkefni sem við þekkjum minnst af þessum verkefnum. Við þekkjum stofnvegakerfið betur og það er auðvitað meiri hætta að við förum frammúr áætlun. Mér finnst skipta máli að við séum svolítið varfærin þar en ég held að það sé gott fyrir íbúa svæðisins að sjá breytingar og að innan einhverra margra ára sjái fólk að einhverju leyti greiðari strætóferðir sem við upplifum ekki í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert