„Þetta fangelsi er barn síns tíma“

Páll Winkel fangelsismálastjóri á Litla-Hrauni í dag.
Páll Winkel fangelsismálastjóri á Litla-Hrauni í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Páll Winkel fangelsismálastjóri segir að litið verði til hinna Norðurlandanna við hönnun og byggingu nýs fangelsis að Litla-Hrauni. Fyrirhugað er að hundrað rými verði í nýju fangelsi. 

Dómsmálaráðherra kynnti í dag að Litla-Hrauni yrði lokað og að nýtt fangelsi myndi rísa á staðnum. 

„Já þetta fangelsi er barn síns tíma, eða barn einhverra tíma. Þetta er ekki öruggt fangelsi, hér er enginn aðskilnaður milli fanga. Það er erfitt að stöðva streymi fíkniefna og starfsfólki líður illa að vinna við erfiðar aðstæður,“ segir Páll í samtali við mbl.is. 

Einhver hús kannski jöfnuð við jörðu

Stuðst verður við betrunarstefnu við hönnun nýs fangelsis þar sem föngum muni líða betur og upplifa sig á uppbyggilegum stað. 

Fangelsið verður byggt að erlendri fyrirmynd og segir Páll að sérstaklega verði litið til nýrra fangelsa á Norðurlöndunum en að byggingin verði þó aðlöguð að þörfum. 

Litla-Hraun verður tekið úr notkun og mögulega einhver hús jöfnuð við jörðu. Þó gæti einhver starfsemi farið fram í einhverjum húsanna, en þar verði fólk ekki nauðungarvistað eins og í dag. 

Hann segir að ef allt gangi eftir verði nýtt fangelsi tekið í notkun eftir þrjú til fjögur ár.

Páll og Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra á fundinum.
Páll og Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra á fundinum. mbl.is/Árni Sæberg

Hundrað fangar í nýja fangelsinu

Gert er ráð fyrir hundrað rýmum í nýja fangelsinu en Páll segir að í dag sé hægt að vista 86 fanga á Litla-Hrauni. Það sé þó mjög þröngt um fanga þegar svo margir eru vistaðir þar. 

Þá er aðeins bætt við 14 rýmum. Er það nóg?

„Við myndum örugglega þiggja fleiri rými en þetta er það sem er á áætlun núna. Það er líka verið að fjölga rýmum á Sogni,“ segir Páll en 14 rými munu bætast við á Sogni á næstu mánuðum. 

Hann segist telja að ekki þurfi mikið fleiri en um það bil þessi hundrað rými. 

Verður þetta mikil breyting fyrir starfsfólk?

„Já, þetta er stór vinnustaður nú þegar og verður stærri með nýja húsinu. Við viljum að fólki líði vel í vinnunni. Fólk gefst bara upp ef því líður illa í vinnunni,“ segir Páll.

Litla-Hraun var byggt árið 1929 og átti upphaflega að vera …
Litla-Hraun var byggt árið 1929 og átti upphaflega að vera sjúkrahús. Ekki tókst þó að fjármagna rekstur sjúkrahúss svo ákvað var að nota það sem fangelsi. Síðan hefur verið byggt við húsið tíu sinnum með enga sérstaka hugmyndafræði um betrun að leiðarljósi. mbl.is/Árni Sæberg

Ánægður með ríkisstjórnina 

Aðspurður segir hann að merkilega lítil rótering hafi verið á starfsfólki þrátt fyrir að álagið sé mikið í starfinu. Meira hafi þó verið um langtíma veikindi. 

„Ég var alsæll þegar ég heyrði þessar fréttir fyrir helgi. Ég er ánægður með þessa ríkisstjórn,“ segir Páll spurður um fyrstu viðbrögð við tíðindunum. 

Hann er ánægður með ríkisstjórnina en segir að heilbrigðis- og menntamálaráðuneytin þurfi að koma í meira mæli að starfinu. „Meðferðarstarf og þjónusta þarf að vera eins og tíðkast í fangelsum í dag. Stór hluti okkar skjólstæðinga glíma við geð- og fíknisjúkdóma og þarf að geta fengið betri þjónustu,“ segir Páll. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert