251 fræðimaður sóttist eftir dvöl í Grímshúsi

Valnefnd á vegum Stofnunar Ólafs Ragnars Grímssonar hefur valið 10 …
Valnefnd á vegum Stofnunar Ólafs Ragnars Grímssonar hefur valið 10 fræðimenn sem munu dvelja í Grímshúsi á tímabilinu haust 2023 til sumars 2025. Myndin er úr safni en þar má sjá Ólaf Ragnar Grímsson, Jón Atla Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Ljósmynd/Hringborð Norðurslóða

Valnefnd á vegum stofnunar Ólafs Ragnars Grímssonar hefur valið 10 fræðimenn sem munu taka þátt í verkefninu Fræðadvöl í Grímshúsi og dvelja á Ísafirði á tímabilinu haust 2023 til sumars 2025.

Í tilkynningu sem Arctic Circle sendi frá sér í dag kemur fram að fræðimennirnir hafi verið valdir valdir af sérstakri valnefnd úr hópi 251 umsækjanda frá 60 löndum.

Halda fyrirlestra í Reykjavík og á Akureyri

Fræðadvölin er unnin í samstarfi við Hringborð Norðurslóða (e. Arctic Circle), Háskólasetur Vestfjarða, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Akureyri og líftækifyrirtækið Kerecis. Henni er ætlað að skapa erlendum og íslenskum vísindamönnum, sérfræðingum, fræðimönnum, rithöfundum og fleirum kost á því að dvelja í tvær til sex vikur í Grímshúsi á Ísafirði þar sem fjölskylda Ólafs Ragnars bjó eitt sinn. 

Til stendur að hver fræðimaður haldi fyrirlestur eða taki þátt í sérstökum samræðufundum, ýmist á Ísafirði eða við háskólana í Reykjavík eða á Akureyri.

Rannsakar andlega líðan í frumbyggjasamfélögum

Fram kemur í tilkynningu Arctic Circle að þeir fræðimenn sem fara fyrstir í Grímshús og hefja störf í haust verði þær Seira Duncan frá Bretlandi og hin franska og bandaríska Diana Brode-Roger. 

Verkefni Duncan ber felur í sér rannsóknir á andlegri vellíðan meðal frumbyggjasamfélaga á Norðurslóðum á tímum loftslagsbreytinga, en Brode-Roger vinnur að samanburðarrannsóknum á því hvernig skilningur á umhverfinu hafi áhrif á áhættumat á Norðurslóðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert