60% eiga erfitt með að ná endum saman

Skýrslan var kynnt í dag.
Skýrslan var kynnt í dag. Ljósmynd/Aðsend

Sex af hverjum tíu sem vinna við ræstingar eiga erfitt með ná endum saman og tæplega tveir af hverjum tíu búa við efnislegan skort. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Vörðu – Rannsóknarstofu vinnumarkaðarins.

Sýna niðurstöðurnar að staða þeirra sem vinna við ræstingar er verri en þeirra sem vinna önnur störf á öllum mælikvörðum.

Þá metur lægra hlutfall líkamlegt heilsufar sitt gott, en 39% þeirra sem vinna við ræstingar telur líkamlegt hlutfall sitt gott samanborið við 50% hjá þeim sem vinna önnur störf.

Andleg líðan mælist sömuleiðis mun verri meðal þeirra sem starfa við ræstingar. Til viðbótar hafa þau sem starfa við ræstingar í meira mæli orðið fyrir réttindabrotum á síðastliðnum 12 mánuðum.

Skýrslan var kynnt í dag.

„Við erum að tala hér um hóp fólks sem sinnir gríðarlega mikilvægum störfum sem að mælist með talsvert verri lífsskilyrði á öllum mælikvörðum en annað fólk á vinnumarkaði. Það er auðvitað óboðlegt og ljóst að þurfi að taka til hendinni til að tryggja fólki sem starfar við ræstingar ásættanleg launakjör og starfsaðstæður,“ sagði Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdarstjóri Vörðu, á fundinum.

Rannsóknin náði til félaga í aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og BSRB – heildarsamtaka stéttafélaga starfsmanna í almannaþjónustu. Þetta er þriðja árið í röð sem könnun á lífsskilyrðum launafólks er gerð og hefur fjöldi svara aldrei verið meiri en nú.

Skýrsluna má nálgast á vef Vörðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert