Dró játningu til baka á síðustu stundu

Hinn ákærði dró játningu sína til baka varðandi eina stunguárásina.
Hinn ákærði dró játningu sína til baka varðandi eina stunguárásina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alexander Máni Björnsson, sem ákærður er fyrir tilraun til manndráps í Bankastræti Club-málinu svokallaða, dró til baka játningu rétt áður en málflutningur saksóknara átti að hefjast  í málinu. 

Með því að draga játninguna til baka þurfti að gera hlé á aðalmeðferðinni og Sigríður Hjaltested dómari í málinu sagði það óvirðingu við réttinn að þetta hefði komið fram á síðustu stundu.

Lögmaður Alexanders Mána, Ómar Valdimarsson, sagði að þessi afstaða hefði komið fram seint í gærkvöldi.

Lífshættuleg árás

Hafði Alexander Máni áður viðurkennt að hafa stungið tvo af þeim þremur sem hlutu stungusár í árásinni. Játningin sem dregin var til baka snýr að árás á eitt fórnarlambanna þar sem slagæð fór í sundur vegna stungu í læri. Var það metið sem svo af læknum að árásin hefði verið lífshættuleg.   

Með því að breyta afstöðu sinni til sakargifta breytti það landslagi dagsins þar sem saksóknari var ekki búinn undir þessar vendingar. Hlé hefur verið gert á meðan verjandi Alexanders og dómari ráða ráðum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert