„Hefði ekki þurft nema einn tölvupóst“

Bankastræti Club-málið er í uppnámi.
Bankastræti Club-málið er í uppnámi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það hefði ekki þurft nema einn tölvupóst,“ sagði Sigríður Hjaltested, dómari í Bankastræti Club-málinu, sem nú er í uppnámi eftir að Alexander Máni Björnsson dró í morgun játningu sína til baka í einu stunguárásarmálinu á skemmtistaðnum. 

Dómarinn er heldur ósáttur við vinnubrögð Ómars Valdimarssonar, lögmanns Alexanders Mána. „Þér hefði verið í lófa lægið að upplýsa dóminn um þetta. Það eru ekki góðir lögmannshættir að gera þetta með þessum hætti,“ segir Sigríður. 

Ómar lagði einnig fram bókun þar sem hann baðst velvirðingar á því að þetta hafi komið svo seint fram, en benti á stjórnarskrárbundinn rétt Alexanders Mána til að breyta afstöðu til sakargifta. 

Gætu nú þurft að sanna sakleysi sinna skjólstæðinga

Dagmar Ösp Vésteinsdóttir, fulltrúi héraðssaksóknara, sagði af þessu tilefni að hún væri eftir sem áður tilbúin að flytja mál sitt. Er það þrátt fyrir að hún sem aðrir hafi ekki verið búin undir það að ákærði breytti afstöðu sinni til sakargifta.  Bað hún hins vegar um það að Alexander Máni myndi lýsa því yfir í búkmyndavél, hvers vegna hann hefði breytt afstöðu sinni. 

Aðrir lögmenn tóku einnig til máls um þetta en tíu eru ákærðir fyrir alvarlega líkamsárás. Með þessari vendingu gætu þeir þurft að sanna sakleysi sinna skjólstæðinga hvað varðar eina af hnífstunguárásunum.  

Getur ekki játað samvisku sinnar vegna

Eftir stutt hlé lýsti Alexander því yfir í skýrslutöku fyrir framan lögreglumann með búkmyndavél að hann myndi ekki eftir kvöldinu. Eftir yfirlegu yfir myndbandsupptökum sæi hann hins vegar ekki hvernig hann ætti að hafa stungið eitt fórnarlambanna. 

Því gæti hann ekki samvisku sinnar vegna, játað eitthvað sem hann væri ekki sannfærður um að hafa gert.

Héraðssaksóknari, sagði af þessu tilefni að þetta breytti engu um málið. Sönnunarfærsla hefði þegar farið fram við aðalmeðferðina. 

Lögmaður eins sakborningsins í málinu lagði þá fram bókun þar sem hann óskaði eftir því að önnur skýrsla yrði tekin af hans skjólstæðingi.  

Annar lögmaður tók einnig til máls þar sem hann sagði að ástæða gæti verið til þess að lögmenn myndu heyra í sínum skjólstæðingum. 

Fréttin hefur verið uppfærð 

mbl.is
Loka