Katrín segir árásir Hamas á Ísrael skelfilegar

Katrín hefur áhyggjur af frekari stigmögnun.
Katrín hefur áhyggjur af frekari stigmögnun. Samsett mynd

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kveðst í samtali við mbl.is hafa miklar áhyggjur af frekari stigmögnun í átökum sem eiga sér stað í Ísrael og Gaza vegna áframhaldandi hryðjuverkaárása Hamas-hryðjuverkasamtakanna, sem hófust í gær.

„Þetta er auðvitað algjörlega skelfilegt, þessar skelfilegu árásir sem Hamas réðust í í gærmorgun. Við sjáum það að á þessum eina sólarhring hefur þetta stigmagnast mjög hratt. Bæði mikið mannfall á einum degi og lítur út fyrir að þetta geti stigmagnast með aðkomu Hezbollah í Líbanon,“ segir Katrín og bætir við:

Þannig þetta er bara skelfileg atburðarás sem við erum að sjá fara þarna af stað, á svæði sem á sér langa sögu átaka og mikilla grimmdarverka í fortíðinni.“

Segir Þórdísi hafa lýst afstöðu Íslands

Tekur þú undir orð Þórdísar um að Ísrael hafi fullan rétt til sjálfsvarnar?

„Utanríkisráðherra hefur lýst afstöðu íslenskra stjórnvalda þar sem við fordæmum þessar árásir í gær. En eins og ég segi þá er full ástæða til að hafa miklar og þungar áhyggjur af þessari stigmögnun sem við höfum séð síðasta sólarhringinn og hún getur breiðst út.“

Að lokum ítrekar Katrín að borgaraþjónustan sé búin að vera í samskiptum við Íslendinga í Ísrael og að þeir eigi að láta vita af sér. Fólki líði auðvitað óþægilega í þessum aðstæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert