Íslendingar „í öruggri höfn“ og Færeyingum boðið með

Íslenski hópurinn gengur inn fyirr landamærahlið í Jórdaníu.
Íslenski hópurinn gengur inn fyirr landamærahlið í Jórdaníu.

„Við erum komin til Jórdaníu. Við erum í öruggri höfn. Við erum ekki stríðshrjáðu landi og ekki í hættu á eldflaugaárás eða slíku. Við erum við landamærastöð í Jórdaníu og þetta hefur gengið vonum framar,“ segir Sigurður Kolbeinsson, fararstjóri hjá Kolumbus sem hefur unnið í alla nótt að því að koma hópi 85 ferðamanna frá Ísrael.

Raunar er hópurinn orðinn 90 manns því íslenska ríkið bauð fimm Færeyingum að koma með í flugið. 

Rútur eru af skornum skammti í Jórdaníu vegna fólks á …
Rútur eru af skornum skammti í Jórdaníu vegna fólks á flótta inn í landið. Ljósmynd/Sigurður Kolbeinsson

Í gær stóð til að hópurinn myndi fara með flugi klukkan rúmlega 9 í morgun eftir að borgaþjónustan bauð fram leiguvél frá Icelandair til að sækja fólkið. Það plan fauk hins vegar út um gluggann eftir að Ben Gurion flugvellinum í Tel Aviv var lokað vegna aukins hættuástands. 

Erfitt að fá rútu vegna landflótta

„Við unnum alla nóttina að þessu plani með borgaraþjónustunni, Icelandair og ísraelskum samstarfsmanni Kolumbus. Það voru óvissuþættir í þessu þar sem lendingarheimildin fékkst ekki fyrr en rétt fyrir klukkan 11. Síðan var annað vandamál að fá rútu í Jórdaníu því þær eru svo svakalega uppteknar vegna landflótta hingað. Nú erum við hins vegar komin inn í landið. Síðasta fólkið eru í þessu að teyma töskurnar sínar inn í landið. Við eigum bara eftir að sýna lögreglunni að við séum með passastimpil,“ segir Sigurður. 

Íslenski hópurinn bíður þess að komast af stað til Amman.
Íslenski hópurinn bíður þess að komast af stað til Amman. Ljósmynd/Sigurður Kolbeinsson

Mikil óvissa

Næst tekur við tveggja til þriggja tíma rútuferð á flugvöllinn í Amman áður en flug FÍ1086 fer með hópinn til landsins. 

Að sögn Sigurðar þurfti hann að senda skilaboð á hópinn í gærkvöldi að hann myndi ekki fara að sofa sökum óvissu sem var í lofti. 

„Mín tilfinning reyndist rétt um að við myndum ekki geta farið í þetta flug. Síðan um eitt til hálf tvö fékkst staðfest að ekki væri hægt að fara í gegnum Ben Gurion flugvöllinn. Þá fékk fólk upplýsingar um að það gæti mætt til okkar klukkan hálf tíu. Í dag hefur svo allt staðist og við erum í öruggri höfn.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert