Aldrei séð svona tölur í október

Mælir við apótek á Tenerife sýndi í gær 43 gráður …
Mælir við apótek á Tenerife sýndi í gær 43 gráður sem þýðir að opinber mæling gæti verið um og yfir 40 gráður. mbl.is/sisi

„Stigin standa þannig að það er bara rosalega heitt,“ segir Sigvaldi Kaldalóns við mbl.is, víða betur þekktur sem Svali, sem rekur ferðaþjónustu á Tenerife og þjónustað hefur margan íslenskan sóldýrkandann þar síðustu misseri.

„Hér hefur verið regnlaust síðan í vor og óvenjuheitt sumar, eins og alls staðar held ég, ágúst og september aldrei eins heitir og ég hef aldrei séð svona tölur í október, það hafa verið 40 gráður síðustu þrjá daga og hár hiti alla síðustu viku, yfir 30 stig,“ segir Sigvaldi og bætir því við að fólk almennt sé ekki yfir sig kátt yfir mollunni.

Sigvaldi hefur sinnt rekstri ferðaþjónustu á Tenerife undanfarin misseri en …
Sigvaldi hefur sinnt rekstri ferðaþjónustu á Tenerife undanfarin misseri en hefur aldrei séð aðrar eins hitatölur í október.

Frá því reynast þó undantekningar, hann er spurður út í viðbrögð Íslendinga á svæðinu við kæfandi hitanum sem stórir hlutar heimsbyggðarinnar hafa fengið að reyna síðustu mánuði.

„Íslendingarnir eru alsælir, þeir njóta sín vel í lauginni,“ segir Sigvaldi og bætir því við að spáin fyrir næstu vikuna sé eins, 31 og upp í 37 gráður. „Það er ekkert óalgengt að komi svona hitaskot annað slagið en þetta er bara búið að vera svo lengi, þetta er hátt í þriggja vikna tímabil núna.“'

28 gráður um hánótt

Sigvaldi kveður flesta ferðamenn ánægða með hitann, að minnsta kosti upp að vissu marki, hann hafi ekki haft miklar spurnir af heilsutengdum vandamálum á borð við ofþornun. „Lágmarkshitastigið er núna 28 gráður, það er yfir blánóttina, menn eru á ferð hérna langt fram á kvöld og afar hressir langt fram á nótt, á ákveðnum svæðum að minnsta kosti,“ segir hann.

Eldra fólk sé nú mikið farið að tínast til Kanaríeyja eins og vaninn sé um þetta leyti árs og þá sé seint ofbrýnt fyrir fólki að muna eftir salt- og steinefnatöflunum sem séu sumum mjög nauðsynlegar í miklum hita.

Aðspurður segir Sigvaldi áhrif hitans á hans rekstur ekki mikil, „nema að við getum ekki farið í gönguferðir, hvort tveggja er of heitt og svo það mikil eldhætta að skógarsvæðinu eru bara lokuð, hér lentu menn illa í skógareldum í ágúst og eru ekki til í það aftur“, segir Sigvaldi sem býður viðskiptavinum sínum upp á loftkældar rútuferðir alla virka daga.

„Þetta er vissulega skrýtið og þetta er ekki vanalega svona,“ slær Sigvaldi Kaldalóns, Svali, botninn í viðtal þar sem hann er staddur á Tenerife í allt öðrum aðstæðum en kalla mætti svalar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert