Eldisfiskur á að vera í kvíum en ekki utan þeirra

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra.
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra segir að samþykkt hafi verið af Alþingi til að veita Hafrannsóknastofnun og Matvælastofnun auknar fjárheimildir vegna sjókvíaeldis sem nema um 2,2 milljörðum króna næstu fimm árin.

„Það fjármagn var ákveðið og það veitt meðal annars vegna þeirra athugasemda sem komu fram í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar. Matvælastofnun hefur nú þegar, fyrir tíu dögum, auglýst sex stöðugildi eftirlitsmanna og dýralækna sem sinna munu eftirliti,“ sagði Svandís í sérstakri umræðu um slysasleppingu í sjókvíaeldi á Alþingi í dag, en Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir úr Framsóknarflokki var málshefjandi umræðunnar.

Hafa keypt tvo neðansjávardróna í eftirlit

Svandís segir að Matvælastofnun hafi þegar ráðist í aðgerðir sem ekki krefjast lagabreytinga en hefur verið bent á í áðurnefndum úttektum, svo sem breytingar á verklagi varðandi eftirlit með stroki, ttil dæmis með því að vakta fóðurmagn sem fer í kvíar og með því að leggja meiri áherslu á innra eftirlit. Matvælastofnun hefur einnig fjárfest í tveimur neðansjávardrónum sem verða nýttir við sérstakt eftirlit.

Síðustu sleppingar til meðferðar

„Hvað varðar viðurlög við stórum sleppingum og takmörkuðu innra eftirliti, eins og hafa verið brögð að, þá eru síðustu sleppingar til meðferðar á viðeigandi stöðum í stjórnsýslunni og ég get ekki tjáð mig um þær sérstaklega. Þó get ég sagt að viðurlög verða til endurskoðunar í því frumvarpi sem verður mælt fyrir hér á þinginu síðar í vetur og umfjöllun við þá frumvarpsvinnu sem fram undan er. Það er mín skoðun að engin frávik eigi að vera án afleiðinga,“ sagði Svandís.

Hún sagði ennfremur að mikilvægast sé að fyrirbyggja strok og að eldisfiskur eigi að vera í kvíum en ekki utan þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert