Margir þættir enn til skoðunar í Bátavogi

Kona um fertugt situr í gæsluvarðhaldi.
Kona um fertugt situr í gæsluvarðhaldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gæsluvarðhald yfir konu, sem grunuð er um að hafa orðið karlmanni á sextugsaldri að bana í fjölbýlishúsi við Bátavog, var framlengt til 25. október.

Þetta staðfestir Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn hjá miðlægri rann­sókn­ar­deild lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu.

Upphaflega var greint frá því að gæsluvarðhaldið ætti að renna út í dag, 18. október, en að sögn Ævars Pálma var það lengt með úrskurði Landsréttar. Rennur það út eftir viku.

Umfangsmikið mál

Ævar Pálmi segir í samtali við mbl.is, að rannsókn málsins sé umfangsmikil, en lögreglan þarf að fara yfir talsvert magn af gögnum og yfirheyra nokkur vitni. 

„Það eru margir þættir sem koma til skoðunar.“

Þá liggja endanlegar niðurstöður úr krufningu ekki fyrir. 

Man ekki eftir

Rúv greindi frá því í byrjun mánaðar að dauður smáhundur hefði fundist á vettvangi.

Hundurinn var í eigu húsráðanda, að sögn Ævars.

„Þessi dauði hundur – við teljum að hann tengist þessu máli ekki neitt. Við teljum okkur vera búin að loka fyrir þann enda,“ segir hann enn fremur.

Það getur ekki verið að það komi oft fyrir að það finnist dauð gæludýr á vettvangi?

„Nei ég man nú ekkert eftir því sérstaklega“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert