Andlát: Páll Samúelsson fv. forstjóri Toyota

Páll Samúelsson.
Páll Samúelsson.

Páll Breiðdal Samúelsson, fyrrverandi forstjóri Toyota á Íslandi, lést á hjúkrunarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbakka aðfaranótt sl. laugardags, 21. október, 94 ára að aldri.

Páll, sem var næstyngstur sjö systkina, fæddist á Siglufirði 10. september 1929. Foreldrar hans voru hjónin Einarsína Kristbjörg Pálsdóttir, f. 1891, d. 1941, og Samúel Ólafsson, f. 1887, d. 1935, verkstjóri og síldarsaltandi á Siglufirði.

Páll gekk fáein ár í barnaskóla Siglufjarðar og vann tilfallandi störf á síldarplönunum og tók ýmis verkefni sem buðust í bænum. Aðeins 11 ára gamall hafði Páll misst báða foreldra sína, en hafði skjól hjá móðurömmu sinni. Ungur var Páll sendur í vistir á bæjum. Komst svo í nám um hríð við Héraðsskólann í Reykholti í Borgarfirði.

Eftir að Páll fluttist til Reykjavíkur sneri hann sér að viðskiptum. Áhuginn beindist fljótt að bílum en Páll og tengdafaðir hans Bogi Sigurðarson voru hluthafar í Japönsku bifreiðasölunni hf. Svo fór að Páll keypti fyrirtækið. Í fyrstu gekk rekstur þess erfiðlega en Páll hélt sínu striki. Fyrsta Toyota-bílinn flutti hann til landsins og seldi árið 1965. „Ég fékk fljótt á tilfinninguna að Toyota væru bílar sem Íslendingum líkaði við og myndu seljast vel,“ sagði Páll Samúelsson í Morgunblaðinu árið 2021.

P. Samúelsson ehf., Toyota-umboðið á Íslandi, var formlega stofnað 17. júní 1970 af Páli og fjölskyldu hans. Samhliða urðu til ýmis fyrirtæki í tengdri starfsemi. Rekstur sinn seldu Páll og fjölskylda 2005. Þá var Toyota mest selda bílategundin á Íslandi. Framtíðarsýn og framkvæmdagleði einkenndi Pál í öllu hans starfi. Hann lét til sín taka í umhverfismálum, svo sem skógrækt, og studdi ýmis menningarverkefni.

Eftirlifandi eiginkona Páls er Elín Sigrún Jóhannesdóttir, f. 1934. Börnin eru Jón Sigurður, f. 1953, verslunarmaður; Bogi Óskar, f. 1962, viðskiptafræðingur, og Anna Sigurlaug, f. 1974.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert