Mætir óhræddur fyrir dóm í hryðjuverkamálinu

Hryðjuverkamálið mun fara fyrir dóm.
Hryðjuverkamálið mun fara fyrir dóm. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sveinn Andri Sveins­son, lögmaður og verj­andi sak­bornings í hryðju­verkja­mál­inu svo­kallaða, kveðst ósammála niðurstöðu Landsréttar um að gera héraðsdómi Reykjavíkur að taka ákæruna til efnismeðferðar, eftir að henni hafði verið vísað frá í tvígang. Hryðjuverkamálið mun því fyrir dóm.

„Ég er efnislega ósammála þessari niðurstöðu. En þeir [Landsréttur] hafa lokaorðið. Sjálfum fannst mér úrskurður héraðsdóms um þetta vera skýr og skorinorður, vel rökstuddur og var ég sammála þeirri niðurstöðu,“ segir Sveinn í samtali við mbl.is.

Getur nú hreinsað orðpor sitt

Sveinn segir þó að líta verði á björtu hliðarnar við þessa niðurstöðu. Nú geti umbjóðandi hans, Sindri Snær Birgisson, hreinsað orðspor sitt. Til lengri tíma litið sé það betra fyrir Sindra. 

„Minn umbjóðandi óttast ekki efnismeðferð málsins, enda saklaus. Þannig er eiginlega betra að fá hreina og klára sýknu heldur en að þetta falli á einhverjum tæknilegum atriðum og endi út í skurði, eins og í stefndi,“ segir Sveinn.

Þannig þið eruð klárir í þetta?

„Já 200%,“ segir Sveinn að lokum.

Landsréttur felldi úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur

Lands­rétt­ur hef­ur eins og fyrr segir fellt úr gildi úr­sk­urð Héraðsdóms Reykja­vík­ur um að vísa frá ákæru­liðum í hryðju­verka­mál­inu svo­kallaða og skipað héraðsdómi að taka ákær­una til efn­is­meðferðar.

Sindri Snær Birg­is­son er ákærður fyr­ir til­raun til hryðju­verka en Ísi­dór Nathans­son fyr­ir að eiga hlut í þeirri til­raun með því að hvetja Sindra áfram.

Héraðsdóm­ur hef­ur vísað frá ákæru­lið er varðar skipu­lagn­ingu hryðju­verka í þessu máli tvisvar sinn­um. Í byrj­un mánaðar kærði héraðssak­sókn­ari úr­sk­urð Héraðsdóms Reykja­vík­ur til Lands­rétt­ar í kjöl­far þess að Héraðsdóm­ur vísaði ákær­unni frá. Nú hef­ur Lands­rétt­ur fellt úr­sk­urð héraðsdóms, um frá­vís­un, úr gildi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert