Viðsnúningur í viðhorfum til umhverfisins

Sóllilja Bjarnadóttir doktorsnemi.
Sóllilja Bjarnadóttir doktorsnemi. Ljósmynd/Aðsend

Íslendingar hafa almennt miklar áhyggjur af loftslagsbreytingum, þó einhverjir séu á því máli að áhrif þeirra hér á landi séu ekki jafn slæm og annars staðar. Erlendar rannsóknir sýna að konur hafi meiri loftslagsáhyggjur en karlar. Kynjamunurinn er þó ekki jafn skýr hér á landi.

Þetta kemur fram í rannsókn sem unnin var af Sóllilju Bjarnadóttur doktorsnema og Sigrúnu Ólafsdóttur prófessor. Í rannsókninni skoðuðu þær hvort munur væri á loftslagsáhyggjum eftir kyni hér á landi og hvort félagsmótun og félagsleg hlutverk tengdust loftslagsáhyggjum kynjanna.

Loftslagsáhyggjur miklar hjá bæði körlum og konum

Niðurstaða rannsóknarinnar bendir til þess að hér á landi séu áhyggjur af loftslagsbreytingum miklar hjá báðum kynjum. Aðspurð segir Sóllilja að hugsanlega megi skýra þennan mun með því að Íslendingar séu meðvitaðir um þá slæmu stöðu sem við erum í.

Hún segir erlendar rannsóknir sýna að kynjamunur á loftslagsviðhorfum sé minni í samfélögum þar sem kynjajafnrétti og sterkur efnahagur er við lýði. 

„Við sjáum það oftar í erlendum rannsóknum að konur hafa meiri loftslagsáhyggjur. En erlendar rannsóknir hafa líka sýnt að ef lönd eru með sterkan efnahag og meira jafnrétti á milli kynjanna, þá er ólíklegra að það sé mikill kynjamunur í loftslagsviðhorfum. Þá er hugmyndin sú að þegar þróunarstig samfélaga verður hærra verður aukin áhersla á mannréttindi og umhverfismál. Sem helst þá í hendur við það að kynjamunur í viðhorfum verður minni.“

Íslenskir jöklar hopa hratt vegna hnattrænnar hlýnunar.
Íslenskir jöklar hopa hratt vegna hnattrænnar hlýnunar. mbl.is/Rax

Mjög kynjuð til ársins 2007

Sóllilja segir að á síðustu árum hafi orðið viðsnúningur í viðhorfum til umhverfisins hér á landi. Því til útskýringar bendir hún á aðra rannsókn sína þar sem hún skoðaði hvort að viðhorf til umhverfisverndar og stóriðju væru kynjuð.

Í þeirri rannsókn mátti sjá að viðhorfin voru mjög kynjuð til ársins 2007, þá voru konur líklegri til að vilja leggja áherslu á umhverfisvernd. Eftir það hefur þó ekki verið hægt að sjá kynjamun hvað þetta varðar. Hún segir því ljóst að viðhorf til umhverfisins séu ekki jafn kynjuð í dag og þau voru.

„Það væri áhugavert í framtíðarrannsóknum að skoða, með langtímagögnum, hvort að viðhorf kvenna séu farin að líkjast viðhorfum karla, eða öfugt. En miðað við hversu mikill hluti Íslendinga virðist átta sig á stöðunni sem við erum í varðandi loftslagsbreytingar, er líklegra að það sé það síðara.“

Íslendingar telja loftslagsbreytingar vera vandamál

Sóllilja segir greinilegt að mikill meirihluti hér á landi álíti að loftslagsbreytingar séu að eiga sér stað. Hún segir þó mismunandi hvort fólk telji þær vera vandamál. Um 13,4% Íslendinga álíta að loftslagsbreytingar eigi sér stað en séu ekki vandamál.

Þrátt fyrir það telur meirihluti Íslendinga að loftslagsbreytingar séu vandamál, eða 85,6%. Það er því einungis 1% Íslendinga sem telja að loftslagsbreytingar eigi sér ekki stað.

„Sá hópur sem telur loftslagsbreytingar ekki vera vandamál telur að einhverju leyti að þær séu vandamál fyrir aðrar þjóðir en okkur.“

Yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga áttar sig á því að loftslagsbreytingar séu vandamál og segir Sóllilja það líklegustu ástæðuna fyrir því að kynjamunurinn sé ekki sá sami hér og erlendis.

Vatn flæddi um götur Quimperle, í vestur Frakklandi, eftir stormasamt …
Vatn flæddi um götur Quimperle, í vestur Frakklandi, eftir stormasamt veður um síðastliðna helgi. AFP/Fred Tanneau

Kynjamunur í áhyggjum minni meðal fólks í fullu starfi

Eitt af því sem Sóllilju þykir áhugaverðast við skoðun á niðurstöðum rannsóknarinnar eru samvirkniáhrif kvenkynsbreytunnar og þess að vera í fullu starfi.

Til útskýringar segir hún að þegar allar breytur rannsóknarinnar eru skoðaðar samtímis megi sjá hvað það er í félagsveruleika einstaklinga sem hefur áhrif á þetta samband. Samanburðurinn sýnir marktæk samvirkniáhrif milli kvenkynsbreytunnar og þess að vera í fullu starfi.

„Þetta eru neikvæð samvirkniáhrif sem þýða að tengsl milli kyns og loftslagsáhyggna munu minnka samhliða því að einstaklingar eru í fullu starfi,“ segir Sóllilja og bætir við:

„Í einföldu máli þýðir þetta að kynjamunur er minni í loftslagsáhyggjum fyrir einstaklinga í fullu starfi samanborið við þá sem eru í hlutastarfi. Þá eru kenningar sem notaðar hafa verið erlendis þannig að þeir sem eru meira á vinnumarkaði hafi áhyggjur af hagvexti og fjárhagslegu öryggi, á kostnað umhverfisáhyggna.“

Önnur ástæða, sem Sóllilja telur líklegri fyrir íslenskan veruleika, er að þeir sem eru í fullu starfi séu yfirleitt með hærra menntunarstig.

„Hærra menntunarstig gæti leitt til þess að einstaklingar átta sig betur á stöðunni sem við erum í með loftslagsbreytingum og þess vegna erum við að sjá minni kynjamun í loftslagsáhyggjum fyrir þann hóp.“

„Í því samhengi má jafnframt sjá að þeir sem telja sig vera í ábyrgðarstöðu hvað varðar aðgerðir til að draga úr loftslagsbreytingum eru líklegri til að hafa áhyggjur af loftslagsbreytingum,“ segir Sóllilja.

Tíðar hitabylgjur hafa víða áhrif á daglegt líf fólks.
Tíðar hitabylgjur hafa víða áhrif á daglegt líf fólks. AFP/Spencer Platt

Einungis horft til karla og kvenna

Sóllilja segir niðurstöðurnar áhugaverðar og hlakkar til frekari rannsókna á efninu, þar sem ekki hafa verið gerðar margar rannsóknir sem skoða loftslagsviðhorf út frá kynjavinkli hér á landi.

Þá tekur hún jafnframt fram að ástæða þess að einungis hafi verið horft til karla og kvenna í rannsókninni, sé vegna þess að gögnin sem rannsóknin byggði á hafi ekki tekið mið af öllum kynjum.

„Auðvitað væri miklu betra að hafa öll kyn í þessari greiningu en gögnin buðu því miður ekki upp á það í þetta skipti,“ segir hún.

Loftslagsbreytingar og tíðar hitabylgjur hafa átt þátt í skógareldum.
Loftslagsbreytingar og tíðar hitabylgjur hafa átt þátt í skógareldum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert