„Ég sýni því mikinn skilning að fá þessar áskoranir“

Heilbrigðisráðherra kveðst taka ábyrgð á því sem miður hefur farið …
Heilbrigðisráðherra kveðst taka ábyrgð á því sem miður hefur farið í stuðningi við Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta hefur því miður dregist úr hófi fram, þetta er bara mjög miður og við tökum ábyrgð á því,“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra inntur eftir viðbrögðum við gagnrýni Heyrnar- og talmeinastöð Íslands (HTÍ) um aðgerðaleysi ráðuneytisins gangvart stofnuninni.

13 félagssamtök og stofnanir tóku undir með HTÍ í sameiginlegri tilkynningu í gær, en stofnunin er sú eina sem starfar samkvæmt lögum um þjónustu við heyrnarskerta og ber meðal annars að sinna heyrn­ar­mæl­ing­um, grein­ing­um, meðferð á heyrn­ar- og tal­mein­um ásamt meðferð og íhlutun barna sem fæðast með skarð í góm og/eða vör.

Erfitt að finna nýjan húsakost

Forstjóri HTÍ segir stofnunina skorta fjármagn til að sinna þjónustunni með viðunandi hætti og Ísland vera mikinn eftirbát allra annarra Evrópuþjóða í þjónustu við heyrnaskerta. 

Willum segir ráðuneytið taka áskorunum samtakanna og stofnanna, þá sérstaklega er varða húsakost HTÍ, en lengi staðið hefur til að útvega stofnuninni húsnæði án árangurs. Segir Willum að í hvert skipti sem hyllt hafi í húsnæði hafi eitthvað komið upp á. 

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands er til húsa við Háleitisbraut 1.
Heyrnar- og talmeinastöð Íslands er til húsa við Háleitisbraut 1. mbl.is/Árni Sæberg

Mögulegt samstarf við sænska háskóla

Hann segir einnig lengi hafa verið hugað að því að styrkja mönnun á talmeinafræðingum en ekki síst á heyrnarfræðingum og heyrnartæknum. Spurður hvort það koma til greina að skoða samstarf Háskólans á Akureyri við sænskan háskóla, svarar ráðherrann játandi. 

„Vonandi kemst það á sem fyrst. Það þarf auðvitað að vinnast í samráði við ráðherra háskólamála og Háskólann á Akureyri og þennan skóla sem um ræðir í Svíþjóð. Síðan er það Ármúlaskóli [Fjölbrautarskólinn við Ármúla] sem hefur heyrnartæknina og þar vorum við að binda vonir við að geta farið af stað fyrr.“

100 milljónir til að styrkja rekstrargrunn HTÍ

Willum kveðst einnig nýverið hafa samþykkt að setja inn 100 milljónir til að styrkja rekstrargrunn stofnunarinnar, en hún er rekin að hluta til á sértekjum og ríkisframlögum

„Við munum halda áfram að vinna með stofnuninni og ég sýni því mikinn skilning að fá þessar áskoranir.“

Sameining við Heilsugæsluna skoðuð

Í lok viðtals bætir ráðherrann einnig við að lengi hafi verið til umræðu ýmis sameiningarúrræði á stofnuninni við aðrar stofnanir. Til að mynda hafi verið til tals að sameina stofnunina við Heilsugæsluna.

Einnig hafi verið rætt hvort sameining við Þjónustu- og þekkingarmiðstöð - fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, komi til greina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert