Hættur við sameiningu framhaldsskóla

Hugmyndir um fyrirhugaða sameiningu átta framhaldsskóla hafa verið lagðar til …
Hugmyndir um fyrirhugaða sameiningu átta framhaldsskóla hafa verið lagðar til hliðar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásmundur Einar Daðason, mennta-og barnamálaráðherra, hefur lagt áform um sameiningu átta framhaldsskóla til hliðar. Þetta kom fram í sérstakri umræðu um sameiningu framhaldsskóla sem fram fór á Alþingi í dag. 

Fyrr á þessu ári greindi barna-og menntamálaráðuneytið frá áformum um að kanna fýsileika sameiningar átta framhaldsskóla í þeim tilgangi að mæta þeim áskorunum sem nú blasa við framhaldsskólum, efla framhaldsskólakerfið og til þess að styrkja rekstrargrundvöll skólanna. 

Átta skólar yrðu að fjórum 

Skólarnir átta sem til stóð að sameina í fjóra voru Menntaskólinn á Akureyri og Verkmenntaskólinn á Akureyri, Kvennaskólinn í Reykjavík og Menntaskólinn við Sund, Flensborgarskólinn í Hafnarfirði og Fjölbrautarskóli Suðurnesja og Keilir. 

Tilkynning barna-og menntamálaráðuneytisins um sameiningaráform framhaldsskóla vakti sterk viðbrögð og efndu nemendur meðal annars til samstöðufunda til þess að mótmæla hugsanlegri sameiningu. 

„Við viljum að nám sé fyrir alla. Við viljum geta mætt þessum nemendum, en hver er staðan og hvernig mætum við þeim?“ spurði Ásmundur þegar hann steig í pontu á Alþingi í dag.

Samstaða um að fara aðrar leiðir

Ásmundur Einar sagði fyrirhugaðar hugmyndir um sameiningu hafa miðað að því að mæta sífellt fjölbreyttari hópi nemenda, nemendum af erlendum uppruna og auknum fjölda barna á framhaldsskólaaldri sem hvorki eru á vinnumarkaði né í námi.

Í því skyni hafi hugmyndir um sameiningar litið dagsins ljós, en vegna mikillar mótspyrnu hafi ráðuneytið ákveðið að endurskoða afstöðu sína. 

„Síðan myndaðist gríðarlega mikil samstaða um að reyna að fara aðrar leiðir en þær sem að ég hef rætt hér að framan, því fagna ég. Ég hef aldrei verið sérstakur hvatamaður um sameiningu skóla aðeins til að sameina skóla,“ sagði Ásmundur Einar.

Áformin lögð til hliðar

Þá sagði Ásmundur menntamálaráðuneytið vinna að því að leita lausna og leiða til þess að efla framhaldsskólanna í samráði við önnur ráðuneyti. Þær hugmyndir, sem til standi að kynna við aðra umræðu fjárlaga, feli meðal annars í sér aukið fjármagn til framhaldsskólanna. 

„Þegar þetta samtal fór af stað ýttum við þessum áformum til hliðar að sinni á meðan að við erum að útfæra nýja tímalínu, hvernig við getum mætt þessum áskorunum sem ég nefndi áðan. Dýrara kerfi með dýrari nemendum, en um leið líklega mikilvægustu fjárfestingunum sem við gerum í framhaldsskólakerfinu,“ sagði Ásmundur.

„Það er að grípa nemendur sem eru dýrari í núinu en eru gríðarlega mikilvæg til framtíðar og eru það sem að eru lögbundnar skyldur okkar að mæta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert