Óþarfi að rýma en ætlar sjálfur ekki í Bláa lónið

„Það kæmi fyrst til rýmingar á hættustigi,“ segir Úlfar.
„Það kæmi fyrst til rýmingar á hættustigi,“ segir Úlfar. Samsett mynd

„Ég hef áhyggjur af þessu persónulega, en á meðan við erum á óvissustigi þá erum við ekki að tala um rýmingar. Aftur á móti ef við færum yfir á hættustig þá er ekki ólíklegt að gripið verði til rýminga, en ekki á þessu stigi því kvikan er ekki á hreyfingu upp á við. Þess vegna er óbreytt staða í augnablikinu.“

Þetta segir Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri Suðurnesja, spurður út í ummæli sín í kvöldfréttum ríkisútvarpsins í gær þar sem hann sagði óá­byrgt að halda úti starf­semi í Bláa lón­inu.

Ferðamannastaðurinn er, eins og kunnugt er, staðsettur í Svartsengi, skammt frá miðju landriss þar sem jarðvísindamenn telja mögulegt að eldgos komi upp.

Þú telur ekki þörf á að rýma Bláa lónið núna?

„Það er auðvitað ekki í okkar verklagi að gera það. Við erum á óvissustigi, það kæmi fyrst til rýmingar á hættustigi. Það breytir því ekki að lögreglustjórinn getur haft af þessu ákveðnar áhyggjur.“

Myndir þú fara í Bláa lónið núna?

„Nei, en ég get sagt þér að það eru þrjátíu ár liðin frá því að ég fór í Bláa lónið síðast. Ég er ekki á leiðinni í Bláa lónið.“

Alltaf hægt að hafa áhyggjur af rýmingu

Auk baðstaðar Bláa lónsins eru starfrækt virkjun og þrjú hótel í Svartsengi, Northern Light Inn, Silica-hótel Bláa lónsins og Retreat Bláa lónsins.

Spurður hvort hann óttist að mikið öngþveiti geti skapast við rýmingu þegar ferðamenn og starfsmenn, sem saman telja nokkur hundruð, leggi allir af stað í einu segir Úlfar að alltaf sé hægt að hafa áhyggjur af rýmingum.

„[E]n Bláa lónið er auðvitað með sína rýmingaráætlun sem þau auðvitað fara eftir, ef til þess kæmi að rýma svæðið.“

Rýmingaráætlun sem var æfð á síðasta ári.

„Já, ég held að þau séu nú búin að fara yfir hana nýlega.“

Rekstraraðilinn sem á að koma fólki út fyrir hættusvæði

Í viðtali við mbl.is í gær sagði Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu-, markaðs- og rekstrarsviðs, að það væri á ábyrgð Bláa lónsins að koma fólki út af sínu svæði komi til rýmingar.

Það væri síðan á ábyrgð lögreglustjórans að koma fólki á þau svæði sem talin væru örugg.

„Það er auðvitað fyrir rekstraraðilann að koma fólki út fyrir hættusvæðið,“ segir Úlfar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert