Útilokar ekki bætur eftir stuld á rafrænum skilríkjum

Haraldur Bjarnason, framkvæmdastjóri Auðkennis, segist ekki útiloka neina bótaábyrgð.
Haraldur Bjarnason, framkvæmdastjóri Auðkennis, segist ekki útiloka neina bótaábyrgð. Samsett mynd

Haraldur Bjarnason, framkvæmdastjóri Auðkennis, segist ekki vita til þess að óprúttnum einstaklingum hafi áður tekist að stela rafrænum skilríkjum annarra líkt og Auðun Ingi Ásgeirs­son upplifði í sumar.

Tókst þjófi þá að komast yfir ökuskírteini hans og fara inn í heimabanka með því að plata símafyrirtæki til að afturkalla rafræn skilríki Auðuns og fá ný skilríki útgefin á annað símanúmer.

Svona mál þarf að rannsaka 

„Þetta er ekki eitthvað sem við höfum lent í,“ segir Haraldur og bætir við. „Ég veit ekki til þess að svona mál hafi komið upp með þessum hætti.“

Nefnir hann að upp hafi komið mál þar sem fólk er gabbað með öðrum hætti til þess að samþykkja inngöngu á svæði sem varin eru með rafrænum skilríkjum.  

Auðun tapaði 110 þúsund krónum vegna úttektar þjófsins af kreditkorti eftir að hann komst yfir pin-númer í heimabanka. Aðspurður segir Haraldur að Auðkenni geti verið bótaskylt í sambærilegum tilvikum. 

„Svona mál þarf að rannsaka og það getur vel verið að Auðkenni sé bótaskylt og það er rík krafa á Auðkenni og ábyrgð og það getur alveg verið einn af möguleikunum,“ segir Auðun. 

Hann segir Auðkenni í sambandi við lögreglu ef svona mál koma upp. Hann segir það ekki endilega forsendu að lögreglumál klárist áður en fólki er bætt upp tjón.

Ekkert heyrt í tvo mánuði

Rúmir tveir mánuðir eru síðan Auðun hafði samband við Auðkenni vegna málsins. Hann segir að enginn hjá fyrirtækinu hafi haft samband síðan þá. 

„Við útilokum ekki neina bótaábyrgð. Ef við erum ekki að standa okkur nægilega vel í samskiptum þá viljum við bæta það. Bendum við þeim aðilum sem vilja að hafa samband við okkur,“ segir Haraldur.     

Hann bendir á að ef svona atvik koma upp þá sé mikilvægt að hafa strax samband við Auðkenni. Bæði sé hægt að gera það með því að auðkenna sig með rafrænum skilríkjum og að hringja og óska eftir afturköllun skilríkja. Þá fari ákveðið ferli í gang. Eins sé hægt að fara inn á app Auðkennis og fá nýtt auðkenni með hjálp vegabréfs.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert