Alltaf með pensilinn og strigann á lofti

Sigurður Kristján Ben Jóhannsson myndlistarmaður.
Sigurður Kristján Ben Jóhannsson myndlistarmaður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ísfirðingurinn Sigurður Kristján Ben Jóhannsson, gjarnan nefndur Sigurður Ben, er myndlistarmaður frá náttúrunnar hendi og opnar fyrstu málverkasýningu sína, Síðasta sjens, í Smiðjunni Listhúsi í Ármúla 36 í Reykjavík klukkan 18 á morgun, fimmtudag.

Þau leiðu mistök urðu þegar viðtal við Sigurð birtist í Morgunblaðinu í dag að sýningin var sögð verða opnuð í dag klukkan 18.

Bjarni Sigurðsson hjá Smiðjunni listhúsi segir að reynt verði að hafa opið í kvöld svo fólk komi ekki að lokuðum dyrum vegna þessa en formleg opnun sýningarinnar verði eftir sem áður á morgun. 

Sýnir 30-40 olíumálverk

„Ég sýni 30 til 40 olíumálverk,“ segir Sigurður, sem er 82 ára en byrjaði að mála 16 ára gamall árið 1957.

„Þetta er í puttunum á mér og það er mitt gamanmál að mála,“ segir Sigurður um listina. Hann hafi samt þurft að leggja hana frá sér um stund eftir að hafa eignast konu, Margréti Konráðsdóttur, og tvö börn. „Ég þurfti að vinna fyrir okkur,“ útskýrir hann, en Sigurður lauk námi í rafvirkjun og tækniteiknun frá Iðnskólanum í Reykjavík 1961. Hann vann lengi við rafvirkjun en var síðustu 30 ár starfsævinnar í starfi á Keflavíkurflugvelli. „Ég var samt alltaf með pensilinn og strigann á lofti.“

Bestur í teikningu

Foreldrar Sigurðar fluttu suður þegar hann var 12 ára. „Ég teiknaði mikið og það hjálpaði mér mjög mikið að vera alltaf bestur í teikningu í barnaskólanum, því ég var lesblindur um tíma.“ Hann lærði teikningu hjá Jóhanni Briem í Gagnfræðaskóla Vesturbæjar. „Karlinn sagði mér til og var mjög hrifinn af því hvað ég teiknaði vel. Jóhann var yndislegur maður, hjá honum fékk ég bakteríuna og hef verið veikur af henni síðan. Ekki sleppt pensli í frístundum síðan.“

Nán­ar er rætt við Sigurð í Morg­un­blaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert