Neitað um innlögn á bráðageðdeild

Maðurinn fær ekki að leggjast inn á bráðageðdeild Landspítalans á …
Maðurinn fær ekki að leggjast inn á bráðageðdeild Landspítalans á Hringbraut. mbl.is/Sigurður Bogi

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu - félags fanga, segir geðheilbrigðiskerfið hafa brugðist ungum manni sem situr nú í gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni. Maðurinn er í alvarlegu geðrofi en fær ekki að leggjast inn á bráðageðdeild Landspítalans. 

Guðmundur útskýrir í samtali við mbl.is að hver höndin sé uppi á móti annarri í kerfinu. Fagfólk Fangelsismálastofnunar vilji að maðurinn leggist inn á geðdeild, en bráðageðdeild Landspítala neiti að taka við honum nema gegn því skilyrði að honum fylgi einkennisklæddir fangaverðir eða öryggisverðir. 

Lögreglan, sem ber ábyrgð á gæsluvarðhaldinu, neiti að óska eftir því við dómara að breyta úrskurði sínum á þann veg að vista eigi manninn á viðeigandi stofnun nema að undangengnu mati lækna bráðageðdeildar um að hann sé í geðrofi.

Hann segir Fangelsismálastofnun alla af vilja gerða til að koma manninum í viðeigandi úrræði en að fjármagn skorti til þess að fangaverðir geti fylgt honum á geðdeildina.

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu félags fanga á Íslandi.
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu félags fanga á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

Hræddur og grætur mikið

Guðmundur segir málið grafalvarlegt en hann vakti athygli á máli unga mannsins eftir samtal við hann í síðustu viku. Þá hafi fyrrgreind atburðarás farið af stað um helgina. 

„Hann var í geðrofi, með ranghugmyndir, og veit ekki hvar hann er. Hann er hræddur, grætur mikið og er einfaldlega ekki sami maður og áður. Tónninn í orðum hans eins og hjá öllum öðrum sem hafa endað á að verða sjálfum sér og öðrum hættulegur. Hann er því líklegur til að ráðast á samfanga, fangaverði eða hreinlega svipta sig lífi,“ segir Guðmundur.

Hann segir kerfið margítrekað hafa brotið á mannréttindum þessa unga manns þar sem hann fái ekki þá læknisaðstoð sem hann sannarlega þarf. Nauðsynlegt sé að hann komist inn á bráðageðdeild sem allra fyrst.

Á eftir að enda með ósköpum

„Ég er hugsi yfir stefnu og stöðu heilbrigðismála á Íslandi og get ekki sætt mig við það að stjórnendur geðdeilda mæti í fjölmiðla og haldi því blákalt fram að engum sé vísað frá þegar það er ítrekað staðfest að um ósannsögli er að ræða. Ég skora á heilbrigðisráðherra að gera eitthvað í málunum,“ segir Guðmundur. 

Hann segist vera langþreyttur á því að mega ekki segja hitt og þetta í viðtölum við fjölmiðlum því ekki megi styggja þá sem veita styrki. „Þetta á bara eftir að enda með ósköpum ef ekkert er gert,“ segir Guðmundur. 

Guðmundur upplýsir að fanginn sem umræðir sé karlmaður rétt kominn yfir þrítugt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert