Ætla í slag á lágvöruverðsmarkaði

Móðurfélag Heimkaupa hyggst setja á laggirnar nýja lágvöruverslun. Gréta María …
Móðurfélag Heimkaupa hyggst setja á laggirnar nýja lágvöruverslun. Gréta María Grétarsdóttir er forstjóri fyrirtækisins og Jón Ásgeir Jóhannesson á sæti í stjórn þess. Samsett mynd

Móðurfélag Heimkaupa hyggst fara í slag á lágvöruverðsmarkaði. Stefnt er að því að verslun opni fyrir páska á næsta ári miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu. Forstjóri Heimkaupa segir álagningu á matvöru háa og telur mikil tækifæri á þessum tímapunkti fyrir nýja lágvöruverðsverslun. 

Heimkaup er í eigu Orkunnar sem aftur er í eigu Skeljar. Jón Ásgeir Jóhannesson, sem áður var kenndur við Bónus, er stjórnarformaður Skeljar og einn af stærri eigendum félagsins og á jafnframt sæti í stjórn Heimkaupa.

Gréta María Grétarsdóttir, forstjóri Heimkaupa, staðfestir í samtali við mbl.is að áform séu uppi þess efnis að fara í slag á lágvöruverðsmarkaði. 

Gréta María er ekki ný á þessum markaði, því hún var framkvæmdastjóri Krónunnar á árunum 2018-2020 og hefur síðasta hálfa árið starfað sem forstjóri Heimkaupa, en undir þann hatt fellur verslunarrekstur Orkunnar, meðal annars 10-11 verslanir, Extra og apótek Lyfjavals, auk þess að eiga um þriðjungshlut í bakaríi Brauð & Co.

Bónus sé eina lágvöruverslunin

„Við hyggjum á samkeppni á lágvöruverðsmarkaði og lítum svo á að Bónus sé eina verslunin sem er til staðar á lágvöruverðsmarkaði, en ekki mikið lengur,“ segir Gréta.

Hún segir að búið sé að tryggja húsnæði undir eina verslun sem er miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu auk þess að sem þau hafi augun opin fyrir fleiri staðsetningum. Þá segir hún að stefnan sé sett á að opna nokkrar verslanir en þessi eina verði látin duga til að byrja með. 

„Við erum búin að tryggja okkur húsnæði,“ segir Gréta en kýs að tjá sig ekki um það hvar verslunin verður staðsett að svo stöddu. Hún segir þó frá því að húsnæðið sé umkringt mörgum stórverslunum. „En við erum óhrædd við samkeppnina,“ segir Gréta.

Gréta segist líta svo á að Bónus sé eina lágvöruverslunin …
Gréta segist líta svo á að Bónus sé eina lágvöruverslunin á Íslandi í dag. mbl.is/​Hari

Há álagning veiti tækifæri 

Hún segir að fyrirtækið hafi séð tækifæri á markaði. Það helgist ekki síst á afkomutölum Hagkaupa, Bónus og Krónunar.

„Aðilum á markaði er farið að líða vel með stöðuna og við sjáum það á afkomutölum þessara félaga. Við teljum því svigrúm á markaði til að þjónusta almenning betur og koma með nýtt afl á smásölumarkað,“ segir Gréta.

Spurð segist hún ekki í nokkrum vafa um að hægt sé að bjóða lægra vöruverð en það sem nú býðst. „Það er ekki nokkur spurning. Álagning er há og það er hægt að gera betur,“ segir Gréta.

Ný lágvöruverslun á 25 ára fresti 

Að sögn hennar krefst það gríðarlegs undirbúnings að koma nýrri lágvöruverslun á koppinn.

„Það kemur kannski ný lágvöruverslun fram á um 25 ára fresti og það hefur ekkert gerst á þessum markaði í vel á þriðja áratug. Við teljum á að það sé kominn tími á að hrista upp í þessu,“ segir Gréta. 

Að sögn hennar er ekki komið nafn á hina nýju verslun. Þá á hún von á nafnabreytingu á móðurfélagi Heimkaupa á næstunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert