Hani án kórónu kominn eftir 25 ára bið

Hér má sjá vindhanann án merki Danakonungs.
Hér má sjá vindhanann án merki Danakonungs. Ljósmynd/Embætti forseta Íslands

Búið er að afhjúpa nýjan vindhana sem prýðir nú turn Bessastaðakirkju, en til hefur staðið í um það bil 25 ár að koma honum á sinn stað. 

Í ár eru liðin 200 ár frá því að byggingu kirkjuturnsins lauk og var þá settur á hann vindhani með merki Danakonungs, segir í tilkynningu frá forsetaembættinu. 

Hani án danskra áhrifa

Eftir stofnun lýðveldis var danski haninn tekin niður og í hans stað var settur upp kross sem prýddi turninn þar til ársins 1998, en þá hófust áform um að koma vindhananum aftur á sinn stað, þó án danskra áhrifa. 

Auk þess að sýna úr hvaða átt vindur blæs hefur vindhani sérstakt gildi í kristinni trú. Þar er hann tákn árvekni og skyldurækni og minnir á þegar Pétur postuli afneitaði Jesú þrisvar en þá gól hani, segir enn fremur í tilkynningu. 

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands ásamt kirkjuturninum á meðan framkvæmdum …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands ásamt kirkjuturninum á meðan framkvæmdum stóð, en til hefur staðið að koma hananum á sinn stað í um það bil 25 ár. Ljósmynd/Embætti forseta Íslands

Undir nýja vindhananum er útskorið byggingarár kirkjunnar 1832, en það ártal vísar til þess að þá lauk byggingu turnsins þó að kirkjan hafi verið tekin í notkun árið 1796.

Á Facebook hvetur Guðni Th. Jóhannesson forseti landsmenn til þess að gera sér ferð að Bessastaðakirkju við tækifæri og sjá hanann góða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert