Geta jafnvel tekið á móti þúsund manns

Sjálfboðaliðar Rauða krossins búa sig nú undir að taka á móti íbúum í Grindavík í fjöldahjálparstöð í Kórnum í Kópavogi.

Gylfi Þór Þorsteinsson hjá Rauða krossinum segir óvíst hversu margir muni koma í Kórinn en að hægt verði að taka á móti hundruð, jafnvel þúsund manns. 

„Á þessum tímapunkti erum við fyrst og fremst að horfa á að koma fólki í skjól. Búa þannig um hnútana að fólk geti lagst til hvílu,“ segir Gylfi í samtali við mbl.is.

„Það hefur mikið mætt á fólkinu í Grindavík síðustu daga og vikur og ekki síst í kvöld. Þau þurfa hvíldina og það er það sem við erum að reyna að útbúa fyrir þau í kvöld, stað til að hvílast og finna huggun hvort í öðru.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert