Hann nýtti líf sitt ótrúlega vel

Berglind Häsler missti mann sinn Svavar Pétur Eysteinsson fyrir rúmu …
Berglind Häsler missti mann sinn Svavar Pétur Eysteinsson fyrir rúmu ári. Hans síðustu orð voru að hún ætti að halda áfram að hafa gaman. Berglind hefur nú fundið ástina á ný. mbl.is/Ásdís

Lífsgleðin skín af Berglindi Häsler þegar hún tekur á móti blaðamanni morgun einn í vikunni. Berglind þekkir líka sorgina, en hún var rétt um fertugt þegar hún missti mann sinn Svavar Pétur Eysteinsson sem þjóðin þekkir betur undir listamannsnafninu Prins Póló. Svavar lést af völdum krabbameins, fjórum árum eftir greiningu, en þeim var strax gert ljóst að meinið yrði ekki læknað. Berglind þekkir því angistina sem fylgir því að horfa upp á lífsförunaut sinn veikjast og deyja.

En alltaf heldur lífið áfram og Berglind hefur fundið gleðina á ný. Meira að segja er hún ástfangin, en við komum að því síðar. Við setjumst í kósíhorn í Havaríi í Álfheimum þar sem gott er að spjalla, en Berglind er um það bil að hefja nýjan kafla. Hún ætlar nú út í sjálfstæðan atvinnurekstur; að reka búðina Havarí, sjá um viðburðahald, gallerírekstur og sinna minningarsjóði Svavars Péturs. Og hún ætlar að gera nákvæmlega það sem Prinsinn lagði til rétt áður en hann dró síðasta andann; að halda áfram að hafa gaman.

Ég þekkti hann ekki neitt

„Ég man engin ártöl,“ segir Berglind þegar hún er spurð hvenær hún hafi kynnst Svavari Pétri.

„Jú, 2003 held ég. Það var mjög áhugavert því við tilheyrðum sama stóra vinahópnum en lengi vel, í einhver ár, hittumst við aldrei. Hann var þá í hljómsveitinni Rúnk og ég þekkti hina meðlimina og fór á fullt af tónleikum en ég bara sá hann ekki, þó hann væri á sviðinu. Ég tók ekkert eftir honum. En svo endaði það á því að við hittumst í matarboði hjá vinum okkar þar sem ég þekkti alla nema hann. Upp úr því hittumst við nánast daglega fyrir tilviljun,“ segir Berglind.

„Mér fannst hann spennandi, þó ég myndi ekki segja að það hafi verið ást við fyrstu sýn,“ segir Berglind.

Mánuði síðar voru þau orðin par.

„Svo var fyrsti kossinn á Airwaves á GusGus-tónleikum. Og hálfu ári síðar giftum við okkur. Af þessu hálfa ári var hann tvo eða þrjá mánuði í Berlín. Ég þekkti hann ekki neitt,“ segir Berglind og hlær dátt.

„Hann bað mín eftir mánuð og ég sagði já. Brjálæði sko,“ segir hún og segist hafa farið til foreldra sinna með þessar fréttir.

„Pabbi grátbað mig um að bíða í eitt ár; hann skyldi þá splæsa í geggjað brúðkaup,“ segir Berglind og segist ekki hafa tekið það í mál.

Berglind og Svavar Pétur voru framtakssöm og ævintýragjörn og bjuggu …
Berglind og Svavar Pétur voru framtakssöm og ævintýragjörn og bjuggu víða.

Brúðkaupið var svo haldið 12. júní 2004 en Svavar kom heim frá Berlín rétt áður, í maí.

„Ég man ég hugsaði: „Hvaða rugl er þetta? Ég þekki hann ekki neitt!“ segir Berglind og segist hafa verið að hitta æskuvini Svavars og marga af hans fjölskyldumeðlimum í fyrsta sinn á brúðkaupsdaginn. 

„Ég kynnti mig: „Hæ, ég heiti Berglind; ég er brúðurin.“ Þetta var mjög fyndið og erfitt fyrir fólk að halda ræður þar sem fólk þekkti mig ekkert,“ segir hún og brosir.

Fólk tók þátt í þessu brjálæði

Sambúð þeirra hjóna hófst svo fyrir alvöru eftir brúðkaupið.

„Þetta gekk alveg ótrúlega vel. Sumt var áskorun en mjög margt var frábært og eins og dæmin sanna unnum við vel saman, í gegnum allt saman.“

Þið hafið þá bæði verið framtakssöm, hugmyndarík og uppátækjasöm?

„Já, og það var galdurinn. Lífið einkenndist af því að plana eitthvað stórkostlegt og við létum verða af mörgu sem við plönuðum, með hjálp frá fjölskyldu og stórum vinahópi. Það var mikill drifkraftur og fólk var oft til í að taka þátt í þessu brjálæði,“ segir Berglind, en þau hjón fluttu á Drangsnes, til Barcelona, til Seyðisfjarðar og að lokum keyptu þau gamlan bóndabæ fyrir austan, Karlsstaði í Berufirði, áður en þau settust svo aftur að í Reykjavík. 

Hér má sjá hjónin með börnin Hrólf Svavarsson Häsler, Elísu …
Hér má sjá hjónin með börnin Hrólf Svavarsson Häsler, Elísu Egilsdóttur Häsler og Aldísi Svavarsdóttur Häsler.

Sauðburður fyrsta daginn

„Bærinn Karlsstaðir var heppilegur því þarna var svo mikill húsakostur sem rúmaði vel allar okkar hugmyndir þannig að við létum vaða,“ segir Berglind og segir varla hægt að fara lengra frá Reykjavík. Húsin á bænum voru mörg hver illa farin og þurftu hjónin heldur betur að taka til hendinni.

Var þetta ekki svakaleg vinna fyrir ykkur, ung hjón með þrjú börn?

„Þetta var svo mikil vinna. Algjörlega botnlaust. Svo fylgdu kindur með og ég hafði kannski þrisvar á ævinni stigið inn í fjárhús. Svo var bara sauðburður daginn sem við fluttum,“ segir Berglind og brosir.

„Mamma hans Svavars er af næsta bæ, Berunesi, og þar eru frændur hans með búskap og við fengum hjá þeim ómetanlega hjálp.“

Þú ert sem sagt nýflutt út á land og strax farin að taka á móti lömbum inni í fjárhúsi?

„Já, og bólusetja þau. Þetta var algjört brjálæði. En svo er það svo fyndið að við duttum strax inn í gömlu kynjaskiptinguna. Svavar tók á móti lömbum og ég var inni í húsi með börnunum að baka pönnukökur og taka á móti gestum. Það var eins og að fara aftur í tímann,“ segir Berglind.

Svavar Pétur vissi fátt betra en að vera með marga …
Svavar Pétur vissi fátt betra en að vera með marga bolta á lofti í einu. Hann naut þess mjög að búa í Berufirði á bóndabæ.

Féllust þér aldrei hendur og hugsaðir hvað í ósköpunum þú værir að gera þarna?

„Mjög oft! Það þyrmdi oft yfir mig og stundum tók ég bara börnin og fór í bæinn um stund. Þetta var svo ótrúlega mikil vinna. En Svavar dýrkaði þetta. Ég held að honum hafi aldrei liðið betur. Hann þurfti alltaf að hafa þrjú hundruð verkefni í gangi í einu,“ segir Berglind og nefnir að þau hafi síðan breytt fjósinu í matvælavottað eldhús fyrir bulsugerðina.

„Það var mjög gestkvæmt hjá okkur og mikið að gera. Það höfðu nú ekki allir mikla trú á því að kaffihús og tónleikastaður myndu ganga þarna í sveitinni og fyrsta sumarið var ekki mikið að gera. Næsta sumar var aðeins meira að gera og þriðja sumarið sprakk þetta algjörlega út,“ segir Berglind og segir vinsælar hljómsveitir hafa komið á sumrin og fyllt húsið, auk þess sem ferðamenn mættu í gistingu og mat. Hjónin áttu og ráku Havarí á Karlsstöðum frá 2014 til 2021; en frá 2018 aðeins að sumri til. Berglind segir að þó að þetta hafi oft tekið á hafi þau átt þarna margar af sínum bestu stundum, bæði sem fjölskylda og í góðra vina hópi.

„Árið 2018 var ég orðin mjög þreytt og vildi hafa vetursetu í Reykjavík og vera nær fólkinu okkar,“ segir hún og því hafi þau flutt í bæinn.

Á einum degi varð allt svart

Stuttu eftir að þau komu sér fyrir í Reykjavík dundi ógæfan yfir.

„Svavar hafði þá nefnt það í nokkurn tíma að hann ætti erfitt með að kyngja og dreif sig svo til læknis. Læknirinn sagði að þetta væri annaðhvort krabbamein eða sýking þannig að við biðum í einhverja viku eftir niðurstöðum úr rannsóknum. Svo kom greiningin; að hann væri með krabbamein í vélinda og maga, eða einhvers staðar þar á milli,“ segir hún.

„Á einum degi varð allt svart. Maður missir alveg fótanna. Þetta var gríðarlegt áfall og ég man að ég hugsaði að það yrði aldrei aftur gaman. Mér fannst allt tilgangslaust og hræðilegt. Ég man eftir að ég lá mikið í fósturstellingu þetta fyrsta ár,“ segir Berglind.

„Í kringum okkur hafði verið svo mikil jákvæðni og drifkraftur og ég man að þegar þetta gerðist þá upplifði ég skömm, sem er ótrúlega furðulegt. Ég tók það nærri mér hans vegna að það væri nú litið á hann sem sjúkling; hann sem var kraftmesti maður sem ég hafði hitt,“ segir hún og segist hafa heyrt frá fólki í svipuðum sporum að það kannist við þessa tilfinningar.

Svavar Pétur var ástsæll hjá þjóðinni og margir sem syrgðu …
Svavar Pétur var ástsæll hjá þjóðinni og margir sem syrgðu hann. mbl.is/Ásdís

„Ég vildi ekki að neinn vissi þetta og lengi vel sögðum við ekki neinum frá þessu,“ segir hún og segist hafa átt mjög erfitt með að finna vorkunnsemi frá fólki.

„Ég veit að Svavar hefði ekki viljað láta minnast sín sem manns sem dó ungur, heldur fyrir það sem hann náði að áorka. Það má ekki vera aðalatriði að hann dó fyrir aldur fram því hann nýtti sitt líf alveg ótrúlega vel,“ segir Berglind.

„​Að sjá svona orkumikinn mann, sem mér þótti vænt um, veslast upp er það versta sem ég hef upplifað.“​

Flottasta jarðarför sem hægt er að fá

„Hann dó fyrir ári, þann 29. september. Þó að ég vissi hvað staðan væri orðin slæm var þetta samt auðvitað hræðilegt og óraunverulegt. Við vorum búin að vera saman svo lengi og allt í einu kemur hann aldrei aftur. Þessi hugsun poppar ennþá reglulega upp,“ segir Berglind.

„Það var erfitt að ganga í gegnum þetta og hvað þá nánast með allri þjóðinni. Ég vissi að það yrði svo og ég kveið því mikið. Ég vildi ekki athyglina.“

Berglind segist lítið hafa farið út úr húsi í nokkrar vikur eftir andlát Svavars. Hún þurfti svo að vonum að huga að jarðarförinni, en þrátt fyrir að hafa lengi vitað í hvað stefndi, ræddu þau aldrei hvernig útförin ætti að vera.

„Fyrsta hugsunin var að hafa litla jarðarför í kyrrþey, en svo eftir samtal við fjölskyldu hans og vini okkar, Benedikt Hermann Hermannsson og Björn Kristjánsson, kom þetta til mín. Hann myndi fá flottustu jarðarför sem hægt væri að fá í hans anda; annað væri fáránlegt. Hann elskaði viðburði þó hann hafi kannski ekki elskað að vera miðpunkturinn. Bjössi og Benni fóru því í það risastóra verkefni að útsetja lögin hans fyrir kirkju og þetta var ótrúlegt ferðalag,“ segir Berglind. Margir aðrir lögðu hönd á plóg við að undirbúa þessa mögnuðu kveðjustund.

Bestu vinir Svavars Péturs, Björn Kristjánsson og Benedikt Hermann Hermannsson, …
Bestu vinir Svavars Péturs, Björn Kristjánsson og Benedikt Hermann Hermannsson, tóku að sér að útsetja lög Prinsins fyrir magnaða jarðarför.

„Þetta var algjörlega magnað. Allt þetta ferli var rosalega mikilvægt fyrir mig, og ég held okkur mörg, í sorgarferlinu. Þarna fékk ég styrkinn.“

Þakklát fyrir tímann okkar

Eftir jarðarförina héldu Berglind og vinir þeirra Svavars áfram að vinna saman við að halda nafni hans á loft.

„Síðustu orð Svavars voru að við ættum að halda áfram að hafa gaman og ég ákvað að tileinka mér það. Þetta eru skýr skilaboð frá manni sem var ekki maður margra orða. Við höldum áfram og það er mér mikilvægt að halda hans arfleifð á loft,“ segir Berglind, en auk þess að opna Havarí í Álfheimum var stofnaður minningarsjóður í hans nafni, en árlega verður útdeilt styrkjum til skapandi fólks með góðar hugmyndir.

„Ég reyni að tala mikið um hann heima og hafa hann með okkur,“ segir hún og segist styrkjast með hverjum deginum og lifa í þakklæti.

„Ég er þakklát fyrir tímann sem við fengum þó og reyni að njóta lífsins áfram,“ segir hún og bætir við að nú sé hún tilbúin að segja frá reynslu sinni í von um að það hjálpi fólki sem er í þessum sporum.

„Það er ástæðan fyrir því að ég fer í þetta viðtal því ég man að þegar hann greindist, þá sótti ég mikið í svona viðtöl. Ég er upptekin af því að þetta hafi einhvern tilgang og að saga mín geti mögulega veitt einhverjum von. Og því vil ég segja hana.“

Hefur þú fundið gleðina á ný?

„Já. Og ég er meira að segja ástfangin!“ segir Berglind og brosir breitt.

„Það er ótrúlegt og ég bjóst alls ekki við því. Sumir segja að fólk í mínum sporum eigi að bíða lengur en eitt ár en það er ekkert hægt að plana ástina. Hún er svo mikið afl.“

Ítarlegt viðtal er við Berglindi í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert