Óttast að atburðurinn verði stærri en í fyrstu var haldið

Benedikt segir atburði sem þessa gríðarlega sjaldgæfa.
Benedikt segir atburði sem þessa gríðarlega sjaldgæfa. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Já, ég held að það sé alveg óhætt að segja það vegna þess að hraði atburðarrásarinnar og þessar gríðarlega miklu aflögunarmælingar, sem við sáum svo í gærkvöldi, settu hlutina dálítið í samhengi. Það kom á óvart hvað þetta virtist vera stórt og hvort að það sé laggangurinn, eða kvikan úr honum sé að leita þá bara beint annað, eða hvað er að gerast, er eitthvað sem við höfum verulegar áhyggjur af vegna þess að þarna var um verulegt magn að ræða.“

Þetta segir Benedikt Halldórsson, fagstjóri jarðskjálftavár á Veðurstofu Íslands og rannsóknarprófessor við Háskóla Íslands, spurður að því í viðtali við mbl.is eftir upplýsingafund almannavarna í hádeginu hvort vísindamenn óttist að atburðurinn verði stærri en í fyrstu var haldið. 

Ekki ólíklegt að kvikan sé að leita leiða upp á yfirborðið

„Í raun og veru það að kvikugangurinn eða skjálftavirknin, sem er í vísbending um það hvert kvikan er að leita, hafi mælst út í sjó og þá talsvert, einhverja 2-3 kílómetra, opnar á þá sviðsmynd alveg um leið. En eins og Magnús Tumi kom inn á að þá er það mun ólíklegri sviðsmynd, út af spennuástandi á svæðinu,“ segir Benedikt inntur eftir því hvort líkur á eldgosi úti á sjó séu að aukast.

„Við sjáum það í Fagradalsfjallsgosinu að þar leitaði kvikan í norðaustur og suðvestur, allt liggur við upp í áttina að Keili og svo niður í Nátthagakrika, sneri síðan við og kom upp þarna þar sem hún virtist hafa komið upp fyrst. Þá kom hún upp á yfirborðið þannig að þetta er í raun og veru sú sviðsmynd sem við erum að horfa á að nú hefur dregið úr skjálftavirkni og þá er ekkert ólíklegt að kvikan sé lárétt að ferðast og að leita að auðveldustu stöðunum til að komast að,“ bætir hann við.

Verulegar líkur á eldgosi 

Spurður í framhaldinu hvort það séu þá klukkutímar í eldgos eða hvort um sé að ræða dagaspursmál segir Benedikt mikla óvissu vera varðandi tímasetningar.

„Í minnsta lagi margir klukkutímar en líklegast er þetta ástand sem mun vara í nokkra daga, jafnvel lengur. En eins og við sáum í Fagradalsfjalli, þar var kvikan að brjóta sér leið í þrjár vikur og þá í raun og veru virtist skjálftavirknin vera aðeins að réna og fimm dögum seinna kom gos. Það var einn dagur í gosinu árið 2022, þá var skjálftavirknin áköf í einn dag og svo kom gos fimm dögum seinna og í sumar var það um 8-10 dagar.“

En skyldi það koma á óvart að kvikugangurinn sé að teygja sig svona langt til suðurs og í gegnum Grindavík? 

„Já, í raun og veru kemur það okkur dálítið á óvart. Við vorum að horfa á þessa sviðsmynd að syllan, eða laggangurinn, undir Svartsengi yrði í rauninni miðpunkturinn en við höfum séð það, og sem dæmi í Fagradalsfjalli og núna í gosunum síðustu tvö árin, að kvikan hefur þá möguleika að ferðast dálítið og þá leitar hún einkum eftir þessum norðaustur, suðvestur sprungum sem eru á Reykjanesskaga.

En já, þetta kom okkur á óvart að hún leitaði svona ákaft í suður en þegar maður horfir til baka þá er svona suðvestur færsla á kvikuganginum, þetta er eitthvað sem við höfum séð áður. Það er í rauninni bara tilviljun hvar gangurinn í Grindavík er,“ segir Benedikt.

Svona atburðir gerast gríðarlega sjaldan

Að sögn Benedikts var þetta þó ekki sviðsmyndin sem teiknuð var upp.

„Við vorum búin að horfa til þess að þar sem jarðskjálftavirknin benti til þess að kvikan væri að erfiðast sem mest, það gæti átt sér stað hvar sem er eftir þessari syllu, alveg frá Eldvörpum að Stóra-Skógfelli og þessi fasabreyting í atburðarrásinni, að hún færi að leita svona, það er í raun og veru eitthvað sem við vissum vel af og vísindasamfélagið talaði um en svona frá degi til dags var það ekki sviðsmynd sem við vorum að teikna upp, alla vega í því að tilgreina frá því í svona daglegri þróun en almannavarnir og samtal okkar við almannavarnir tók það til.“

Segir áfram óhætt að búa í Grindavík

Aðspurður hvort óhætt verði að búa í Grindavík og á svæðinu í kring í framtíðinni telur Benedikt svo vera.

„Landkostir þarna á Reykjanesskaga og eins og í Grindavík eru óumdeildir. Svona atburðir gerast gríðarlega sjaldan og það að við séum í atburðarrás núna og þurfum að bregðast við eða átta okkur á því að kvikugangurinn geti verið að leita undir Grindavík, hvert svo sem hann fer í framhaldinu, við erum að vona að það verði bara afar tímabundin ógn.

Eins og þeir sem eru fróðari í jarðsögunni tala um að þá enda langflest svona innskot og gangar án þess að koma upp á yfirborðið og það er líklegasta sviðsmyndin í raun og veru, jafn ólíklegt og manni finnst það vera núna þegar maður er í miðri þessari áköfu atburðarrás,“ segir hann að lokum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert