„Töldum okkur vera ýmsu vön“

Eiríkur áður en hann yfirgaf heimili sitt í Grindavík í …
Eiríkur áður en hann yfirgaf heimili sitt í Grindavík í kvöld. mbl.is/Eyþór

Eiríkur Óli Dagbjartsson, útgerðarstjóri í Grindavík, og eiginkona hans pökkuðu í töskur í kvöld og héldu til dóttur sinnar á Selfossi.

Eiríkur segir þau hafa talið sig vera ansi vön jarðskjálftum í Grindavík en að skjálftahrinan síðdegis og í kvöld hafi verið allt öðruvísi og sterkari en áður. 

„Við ákváðum bara að skella okkur í heimsókn til yngstu dóttur okkar og eyða gæðastund með yngsta barnabarninu okkar,“ segir Eiríkur, en mbl.is ræddi við hann skömmu áður en almannavarnadeild ríkislögreglustjóra lýsti yfir neyðarstigi og Grindavík var rýmd.

Allar skúffur límdar niður.
Allar skúffur límdar niður. mbl.is/Eyþór

Þungir og kröftugir skjálftar

„Við töldum okkur vera ýmsu vön en það sem við upplifðum núna í kvöld er bara á öðrum skala. Þetta eru svo þungir og kröftugir skjálftar. Það er varla nokkur tími á milli þeirra,“ segir Eiríkur um virknina síðdegis og í kvöld. Hann segist aldrei hafa upplifað annað eins. 

„Við erum bara með einhver föt til skiptanna. Við vonumst til að komast heim sem fyrst, en við vitum auðvitað ekki neitt um það. Þetta er alveg búið að vera rosalega mikið frá 25. október, og alveg svakalegt í dag og kvöld,“ segir Eiríkur. 

mbl.is/Eyþór

Hljóti að vera undanfari eldgoss

Hann segist óttast þróunina. Í fyrri jarðskjálftahrinum á Reykjanesskaga hefur virknin verið mikil, dottið niður og svo komið eldgos.

„Það sem er miklu óþægilegra núna er að þetta er búið að vera miklu nær okkur. Allt í einu hoppar þetta yfir Grindavíkurveginn og í Sundhnúkagígana. Það er rosalega margt núna sem er þannig að manni finnst þetta vera undanfari eldgoss,“ segir Eiríkur. 

Hann segir að hingað til hafi ekki orðið skemmdir á húsinu hans og segist hann varla skilja það. Húsin hér á Íslandi séu greinilega byggð til að standa af sér slíkar jarðhræringar.

mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert