Yfir 14 þúsund skjálftar á rúmlega viku

Að minnsta kosti 1.400 skjálftar mældust á Reykjanesskaga síðastliðinn sólarhring. 

Ríkey Júlíusdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að skjálftarnir séu mun færri en mældust sólarhringinn þar á undan, en þá voru þeir 2.100 talsins. Bendir hún á að meðaldýpi skjálftanna sé enn um 5 km.

Hún segir að gliðnun og landsig við Grindavík hafi hægt á sér. Það sé þó lítið hægt að segja um hver þróun jarðhræringanna á Reykjanesskaga verður.

Erfitt að spá fyrir um framhaldið

„Það er rosalega lítið hægt að spá hvort það sé stutt í einhvern atburð,“ segir Ríkey. Stærsti skjálftinn sem mældist var 3 að stærð og átti upptök sín rétt norðvestan Hagafells.

Stærstu skjálftar undanfarinna daga hafa átt upptök sín við fjallið, sem er nálægt Grindavík. Frá því að jarðskjálftahrinan hófst síðdegis föstudaginn 10. nóvember hafa að minnsta kosti 14.300 skjálftar mælst á Reykjanesskaga.

Miklar líkur þykja enn á eldgosi í grennd við Grindavík. Sífellt skýrara verður að það þyki líklegast í grennd við Hagafell.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert