Mikið tjón í Grindavík

Horft ofan í sprunguna.
Horft ofan í sprunguna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Miklar skemmdir má sjá víða um Grindavík eftir þær hamfarir sem hafa gengið yfir bæinn í kjölfar jarðskjálfa og þess að sigdalur myndaðist þar. Sprunga gengur í gegnum stóran hluta bæjarins og er fer meðal annars í gegnum veginn við íþróttamiðstöðina. Þá má sjá heitavatnslögn sem hefur farið í sundur í misgenginu auk þess sem íþróttamiðstöðin virðist sitja á um meter háum stalli.

Blaðamaður og ljósmyndari mbl.is hafa verið á ferð í dag um bæinn og meðal annars virt fyrir sér þær skemmdir sem áttu sér stað.

Eins og sjá má á þessum tveimur myndum við íþróttamiðstöðina hefur gríðarlega mikið gengið á. Er misgengið allt að metri og er eins og stéttin fyrir framan húsið hafi á kafla rofnað frá húsinu.

Eftir hamfarirnar lítur út eins og íþróttamiðstöðin standi á stalli, …
Eftir hamfarirnar lítur út eins og íþróttamiðstöðin standi á stalli, en gangstétt í kringum húsið hefur færst mikið til. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Er misgengið allt að metri við íþróttahúsið.
Er misgengið allt að metri við íþróttahúsið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stutt frá má sjá gríðarlega sprungu í gegnum veginn og er þar meira en meter langt op sem teygir sig gegnum hluta bæjarins. Hefur það meðal annars á einum stað tekið heitavatnslögn í sundur og rýkur upp úr sprungunni.

Á einum stað hefur heitavatnslögn farið í sundur og reykur …
Á einum stað hefur heitavatnslögn farið í sundur og reykur stígur upp úr sprungunni sem gengur í gegnum bæinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Blaðamaður segir að gras dúi víða nálægt sprungum þegar gengið er á því sem bendi til þess að víða vanti jarðveg undir grasið. Þannig lenti björgunarsveitarmaður í því að stíga með öðrum fæti á einum stað í gegnum gras án þess að að verða meint af. Hefur því verið beint til blaðamanns mbl.is að halda sig frekar á malbiki vegna þessa veikleika í jarðveginum.

Sprungan nær í gegnum stóran hluta Grindavíkur.
Sprungan nær í gegnum stóran hluta Grindavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íbúum hefur í dag verið hleypt inn í bæinn til að sækja helstu nauðsynjar og dýrmætar eigur. Þeir hafa hins vegar aðeins skamman tíma til þess. Upphaflega var íbúum gert að fara í fylgd með björgunarsveitum, en þegar leið á daginn var ákveðið að fólk gæti farið inn á eigin bílum. Hins vegar eru öryggispóstar víða um bæinn þar sem björgunarsveitarfólk er staðsett sem ýtir á eftir fólki. Hafði fólki verið gert grein fyrir að aðeins væri ætlast til þess að það væri í 5-7 mínútur á heimili sínu.

Blaðamaður mbl.is segir að víða megi sjá skemmdir og sprungur á húsum í bænum, en að enn sem komið er hafi hann ekki séð hús sem sjáanlega að utan mætti dæma ónýtt.

Björgunarsveitarfólk er víða á öryggispóstum í bænum og hvetur íbúa …
Björgunarsveitarfólk er víða á öryggispóstum í bænum og hvetur íbúa til að drífa sig við að sækja muni sína. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Skemmdirnar eru miklar í Grindavík.
Skemmdirnar eru miklar í Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Afleiðingar jarðhræringanna.
Afleiðingar jarðhræringanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert