Þarf að tryggja að það verði engar eftirlegukindur

Guðbrand­ur Örn Arn­ar­son er verkefnastjóri aðgerðamála hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
Guðbrand­ur Örn Arn­ar­son er verkefnastjóri aðgerðamála hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um klukkan fjögur var lokað fyrir alla umferð inn til Grindavíkur og er nú íbúum aðeins hleypt út eftir að þeir gátu farið og sótt helstu nauðsynjar og dýrmætar eigur í dag.

Guðbrand­ur Örn Arn­ar­son, verk­efna­stjóri aðgerðamála hjá Slysa­varn­ar­fé­lag­inu Lands­björgu, segir að á þessum tímapunkti sé björgunarsveitafólk aðallega að fylgjast með að bærinn tæmist almennilega. Á eftir verði svo gengið úr skugga um að allir séu farnir úr bænum. „Af öryggisástæðum þarf að tryggja að það verði engar eftirlegukindur,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Hann segir að markmiðið í dag hafi verið að tryggja öryggi borgara. Hleypt hafi verið inn í hollum og að allt hafi gengið vel framan af. Þegar leið á daginn hafi svo þurft að fínstilla streymið inn í bæinn, en íbúar hafi sýnt því skilning. „Svo fór þetta að rúlla vel og nú sé streymið út úr bænum og búið að loka fyrir umferð inn í bæinn,“ segir hann.

Samkvæmt teljara Vegagerðarinnar voru um 1.100 bílar sem fóru til Grindavíkur í dag að sögn Guðbrands.

Spurður hvort viðbragðsaðilar hafi þurft að bregðast við einhverjum aðstæðum sem gætu hafa komið upp segir hann svo ekki vera. „Nei, mér fannst fólk standa sig vel í að virða tímatakmörk og það var ekki að hangsa í húsunum og sótti það sem þurfti að sækja. Öllum virtist ljóst hvað gæti gerst. Þetta er atburður sem er í gangi og vísindamenn að spá fyrir um hvað gæti gerst og það er unnið með þær upplýsingar og teknar ákvarðanir út frá því,“ segir Guðbrandur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert