Akureyringar falbjóða líkhús sitt

Kirkjugarðar Akureyrar auglýsa líkhús sitt til sölu eða leigu. Húsið …
Kirkjugarðar Akureyrar auglýsa líkhús sitt til sölu eða leigu. Húsið er vel búið til rekstrar með kælirými fyrir 24 lík, möguleikar til stækkunar. Skjáskot/Morgunblaðið 14. nóvember 2023

„Jú, þannig er að starfsemi kirkjugarða er lögbundin, kjarnastarfsemin er að taka grafir og hirða garðana og okkur ber að taka við öllum látnum, það má hvergi grafa látinn nema í viðurkenndum kirkjugarði eða grafreit,“ segir Smári Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kirkjugarða Akureyrar, í samtali við mbl.is en kirkjugarðarnir þar fyrir norðan birta allóvenjulega auglýsingu í Morgunblaðinu í dag.

„Líkhús til leigu eða sölu“ er yfirskrift hennar og þar óskað eftir áhugasömum aðila til að kaupa eða leigja líkhús garðanna á Akureyri. „Líkhúsið er afar vel búið til rekstrar og eru kælirými fyrir 24 lík og möguleikar fyrir hendi varðandi stækkun,“ segir þar enn fremur. Smári er spurður út í hvernig á sölunni, eða leigunni, standi.

Allar bjargir bannaðar

„Rekstur líkhúsa er hins vegar ekki lögbundinn, það ber enginn ábyrgð á rekstri líkhúsa, og við erum einfaldlega bara að sníða okkur stakk eftir vexti í því rekstrarumhverfi sem við búum við. Til að sinna þessum lögboðnu hlutverkum okkar höfum við verið að segja upp starfsfólki, við höfum slegið á frest viðhaldi og endurnýjun og nú er bara komið að því að skera meira utan af til þess að geta staðið undir þessum lögbundnu verkefnum okkar,“ heldur Smári áfram.

Bætir hann því við að enginn hafi viljað koma að líkhúsrekstrinum, hvorki ríki né sveitarfélög, og görðunum séu allar bjargir bannaðar þar sem þeim sé ekki heimilt að innheimta þjónustugjöld vegna líkhúsreksturs.

Smári Sigurðsson er formaður Kirkjugarðasambands Íslands og enn fremur framkvæmdastjóri …
Smári Sigurðsson er formaður Kirkjugarðasambands Íslands og enn fremur framkvæmdastjóri Kirkjugarða Akureyrar. Hann segir garðana einfaldlega neyðast til að sníða sér stakk eftir vexti. Ljósmynd/Aðsend

„Okkur er því nauðugur einn kostur að sníða okkur stakk eftir vexti til þess að geta sinnt kjarnastarfseminni, svo einfalt er þetta,“ segir framkvæmdastjórinn og er spurður hvort garðarnir leiti því að kaupanda eða leigjanda sem hyggist áfram reka líkhúsið sem líkhús en ekki opna þar til dæmis hótel eða gistiheimili svo sem nú er tíska.

„Auðvitað þarf hvert samfélag líkhús, það hefur enginn sloppið lifandi frá þessu lífi svo vitað sé, eða hvað? Þetta er auðvitað nauðsynleg þjónusta og við tökum það mjög alvarlega að þessi staða sé uppi. Það er náttúrulega ekki okkar að ákveða hvort einhver ætlar að reka líkhús, það er ekki á ábyrgð eins og eða neins og dómsmálaráðuneytinu, sem fer með þennan málaflokk, er búin að vera þessi staða ljós í áratug eða svo og einhver kann að spyrja „nú, af hverju voruð þið þá að byggja líkhús?“ því á Akureyri erum við með líkhús og athafnarými sem er byggt í nútímanum, um 1990 er þetta byggt og þá höfðu kirkjugarðar bara umtalsvert meiri fjármuni til reksturs,“ útskýrir Smári.

Eldgamalt líkhús í Reykjavík

Þá hafi verið tekin ákvörðun í samfélaginu um að kirkjugarðarnir tækju að sér rekstur líkhúsa enda hafi verið borð fyrir báru. „Síðan hefur mikið breyst og enginn viljað taka að sér þennan rekstur,“ segir Smári.

Hann segir tvo kirkjugarða á landinu reka líkhús, Akureyri og Reykjavík. „Og Reykjavík stendur í raun enn verr en við, þeir eru með eldgamalt líkhús sem er í raun bara sprungið út af plássleysi, og með eldgamlan búnað sem kallar á endurnýjun, það er að segja kælirými og aðstöðu. Það alvarlegasta í þessu er að andlátum á eftir að fjölga um hundrað prósent á næstu tuttugu árum vegna aldursdreifingar þjóðarinnar, nema Kári [Stefánsson] finni einhverja nýja langlífistöflu handa okkur,“ segir Smári.

Hann telur afleitt ef Akureyri missi þjónustu líkhús. Þar sé stórt sjúkrahús og öldrunarheimili og hvergi aðstaða til geymslu eða vistunar látinna. „Viljum við sjá ástvini okkar sem falla frá í framtíðinni í einhverjum kæligámum á iðnaðarsvæði?“ spyr framkvæmdastjórinn.

Notandinn skyldi greiða vistun

Málið snúist ekki bara um líkhúsin í Reykjavík og á Akureyri, ekki sé langt síðan fréttir hafi verið fluttar af umræðu á Alþingi um hvernig leysa bæri líkhúsmál á Austfjörðum, enginn vilji hýsa líkhús þar sem ekkert rekstrarfé fáist til þess.

Smári rifjar upp að árið 2005 hafi kirkjugarðarnir lagt á það ofuráherslu að líkhúsin yrðu tekin inn í rekstrarmódel kirkjugarðanna en því hafi ráðuneytið hafnað. „Þá var einkavæðingin í fullum gangi og þá var sagt að notandinn ætti að greiða fyrir vistun í líkhúsi, það er að segja dánarbú eða aðstandendur. Kirkjugarðar rukkuðu þá líkhúsgjald en það var kært og umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að görðunum væri ekki heimilt að rukka þetta gjald því ekki væri lagastoð fyrir því og sendi ráðuneytinu ábendingu um að þessu yrði að kippa í liðinn. Þetta var 2007 og síðan hefur ekkert gerst í málinu,“ segir Smári Sigurðsson frá undir lokin.

Hann segir stöðuna afleita en annar kostur sé ekki stöðunni en að selja eða leigja líkhúsið eftir áralanga baráttu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert