150 milljónir í húsnæði Hólaskóla

Svona kemur aaðstaða skólans á Sauðárkróki til með að líta …
Svona kemur aaðstaða skólans á Sauðárkróki til með að líta út, hús fyrir fiskeldiskennslu og -rannsóknir. Tölvuteikning/Verkfræðistofan Stoð

„Þetta var bæði fallegur og góður dagur á Hólum,“ segir Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum, en viljayfirlýsing með Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, um að treysta starfsemi skólans var undirrituð á málþingi á Hólum sl. fimmtudag. Málþingið var haldið til heiðurs Jóni Bjarnasyni, fv. skólastjóra Bændaskólans á Hólum, og konu hans, Ingibjörgu S. Kolka.

Skólinn á Hólum hefur einn háskóla á landinu haldið úti rannsóknum og kennslu á sviði lagareldis. Samkvæmt yfirlýsingunni koma 130 milljónir kr. í uppbyggingu á aðstöðu fyrir Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum en fyrir liggur vilyrði sveitarfélagsins Skagafjarðar um lóð við Borgarflöt á Sauðárkróki undir þá starfsemi. Áætlað er að fyrsti áfangi verði tilbúinn næsta sumar. Þá verður farið í að selja bleikjueldisstöðina Hólalax.

Aukið samstarf við HÍ

Ráðuneyti Áslaugar leggur einnig fram 20 milljónir króna við uppbyggingu á sameiginlegu húsnæði Hestafræðideildar og Ferðamáladeildar á Hólum. Jafnframt er verið að skoða fýsileika þess að kaupa hesthúsið Brúnastaði á Hólum til að tryggja betur nám í hestafræðum á staðnum.

Viljayfirlýsingin nú kemur í kjölfar annarrar slíkrar sem undirrituð var í ágúst sl. um aukið samstarf og mögulega sameiningu Háskólans á Hólum og Háskóla Íslands. Viðræður hafa staðið yfir og þar er sérstaklega litið til þess með hvaða hætti sé hægt að efla starfsemi Hólaskóla í sínu nærsamfélagi, hvort sem um er að ræða á Hólum eða í sveitarfélaginu Skagafirði. Ráðuneyti Áslaugar hefur, í samvinnu við Háskólann á Hólum, unnið greiningu á starfseminni og þörfum skólans fyrir bætta aðstöðu og gagnsærri rekstur. Í framhaldi af þeirri vinnu hefur fyrrnefnd viljayfirlýsing verið undirrituð, til að treysta starfsemi skólans. Þótti við hæfi að tilkynna þetta á málþingi til heiðurs Jóni Bjarnasyni. Hann var ráðinn skólastjóri á Hólum árið 1981 og átti stærstan þátt í að reisa Hóla til vegs og virðingar á ný sem menntasetur.

Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert