Gert ráð fyrir háskólum í stærri bæjum landsins

Breiðdalsvík. Byggðastofnun hefur gefið út drög að skilgreiningu á opinberri …
Breiðdalsvík. Byggðastofnun hefur gefið út drög að skilgreiningu á opinberri grunnþjónustu. mbl.is/Sigurður Bogi

Byggðastofnun hefur sent frá sér drög að skilgreiningu á opinberri grunnþjónustu í kjölfar beiðni sem sem stofnuninni barst frá innviðaráðuneytinu.

Í drögunum segir að opinber þjónusta sé þjónusta opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga, sem sé aðgengileg öllum íbúum landsins og nauðsynleg til þess að skapa fullnægjandi búsetuskilyrði um land allt.

Þá sé opinber þjónusta jafnframt forsenda þess að fólk geti stundað atvinnu, sótt menntun og frístundastarf og sinnu öðrum daglegum verkefnum og þörfum. 

Ætluð stjórnvöldum til leiðbeiningar

Fram kemur í tilkynningu Stjórnarráðsins að skilgreiningunni sé fyrst og fremst ætlað stjórnvöldum til leiðbeiningar við stefnumótun, framkvæmd stefna og við mat á áhrifum lagafrumvarpa og annarra stjórnvaldsfyrirmæla eða stefnumarkandi ákvarðana hins opinbera. 

Í skilgreiningu Byggðastofnunar er ýmsir þættir þjónustu teknir fyrir. Þar er meðal annars gerð tilraun til þess að draga saman yfirlit yfir dæmigerða staðsetningu þjónustu út frá úrtaki staða í ólíkum stærðarflokkum. 

Hér má sjá töflu sem sýnir yfirlit yfir dæmigerða staðsetningu …
Hér má sjá töflu sem sýnir yfirlit yfir dæmigerða staðsetningu þjónustu út frá úrtaki staða í hverjum stærðarflokki. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Úr töflunni má meðal annars lesa að í stærri bæjum með fleiri en tvö þúsund íbúa er gert ráð fyrir staðsetningu háskóla og framhaldsskóla.

Auk þess er gert ráð fyrir því að í þorpum með íbúafjölda á bilinu 50-400 sé að finna þjónustu á borð við grunnskóla, íþróttahús, sundlaug, heilsugæslu og tónlistarskóla.

Þó er því haldið til haga í skilgreiningu Byggðastofnunar að taflan sé ekki tæmandi um þjónustuflokka og að margar undantekningar séu á staðsetningu þjónustu, ýmist vegna meiri eða minni þjónustu þegar landið er skoðað í heild sinni. 

Drögin að skilgreiningu á opinberri grunnþjónustu eru nú aðgengileg í Samráðsgátt og verða þau opin til umsagna og ábendinga til 7. febrúar 2024. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert