Ótímabært þar sem umfangið liggi ekki fyrir

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir segir ákvörðun Seðlabankans að halda vöxtum …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir segir ákvörðun Seðlabankans að halda vöxtum óbreyttum ekki vera óvænta. mbl.is/Óttar

„Það er ekki tímabært að fara að mæta einhverjum hugsanlegum hækkunum á verðbólgu með öðrum sparnaði vegna þess sem er í gangi þar [á Reykjanesskaga].“

Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra spurð hvort hún telji að auka þurfi sparnað í öðrum málaflokkum vegna jarðhræringa síðustu vikna.

„Almennt eigum við að huga að því með hvaða hætti ríkisfjármálin geta stutt við ábyrga hagstjórn. En af því hvað varðar þessa miklu óvissu sem er uppi núna út af jarðhræringum þá liggur umfangið ekki fyrir og þar af leiðandi ekki þörfin fyrir frekari endurskoðun á öðrum útgjöldum,“ segir hún.

Þarf fyrst að ná utan um umfangið

Þórdís segir mikilvægast að ná fyrst utan um umfangið. Enn sé óvissan mjög mikil. „Þetta snýst um að ná utan um umfangið og mæta því fólki sem þarna hefur orðið fyrir áfalli. Við þurfum að geta aðstoðað það þannig að þau finni út úr sínum málum í breyttum veruleika.“

Þórdís segir okkur vera stödd inni í miðjum atburði sem ekki er vitað hvernig muni þróast. „Það liggur fyrir að hann muni hafa einhver áhrif en við vitum ekki hve mikil.“

Ákvörðun Seðlabankans ekki óvænt

Aðspurð segir Þórdís þá ákvörðun Seðlabankans að halda vöxtum óbreyttum ekki vera óvænta. Hún segist skilja ákvörðunina. 

„Spá bankans sýnir mikilvægi þess að við tökum öll skynsamlegar og ábyrgar ákvarðanir. Á það við alla helstu aðila sem hafa áhrif á bæði raunstöðu og verðbólguvæntingar.“ Hún nefnir aðila vinnumarkaðarins, ríkisfjármálin, sveitarfélögin og þá sem hafa áhrif á verðlag.

„Þetta snýst um okkur öll,“ segir hún og ítrekar að mikilvægt sé að allir gangi í takt til að ná verðbólgu og vaxtastigi niður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert