Hræddur um að allt sé ónýtt

Holan er á bak við Salthúsið í Grindavík.
Holan er á bak við Salthúsið í Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eigandi Salthússins í Grindavík kveðst hafa þurft að brjóta upp hurðir veitingastaðarins til að komast þar inn og er hræddur um að allt sé þar ónýtt.

Veitingastaðurinn er illa farinn en sprunga er undir húsinu og hola myndaðist við hlið þess á dögunum.

„Ég fór þarna á föstudaginn fyrir viku. Þá var komin sprunga á bak við en ekki þessi hola. Ég fékk að fara inn í korter – gerði nú lítið – þá var allt myndi ég segja ónýtt,“ segir Þorlákur Guðmundsson, eigandi Salthússins, og útskýrir nánar:

„Húsið er allt skakkt. Það er bara halli í gólfinu inni, upp og niður, og veggirnir orðnir skekktir. Í eldhúsinu eru stálplötur festar á vegginn, þær eru bara farnar frá. Ég fór í morgun og þá þurfti ég að fara í fylgd björgunarsveitarmanna, þeir fóru inn á undan mér til að kanna aðstæður. Ég fékk að fara inn að taka eitthvað smá dót, ég er ekki að fara taka neitt stórt,“ útskýrir hann.

Ekki notaleg tilfinning

Hann komst fyrst á veitingastaðinn á mánudegi í kjölfar rýmingar en gat lítið aðhafst þar sem hann var að ná í eigur í húsinu sínu. Hann náði rétt svo að kíkja í Salthúsið en þurfti að brjóta upp hurðarnar til að komast inn.

„Ég komst þarna reyndar á mánudeginum fyrst en það var bara í mýflugumynd. Þá sá ég strax hvað var í gangi en þá voru sprungurnar ekki komnar svona mikið,“ segr Þorlákur.

Hann segir óljóst hvað framtíðin ber í skauti sér varðandi veitingareksturinn. Ólíklegt sé að hann myndi fá að byggja þarna upp aftur, ef það væri yfir höfuð hægt. Hann er búinn að reka Salthúsið í um 15 ár.

„Þetta var ekki notaleg tilfinning af því að maður er líka þannig séð nýkominn úr faraldrinum, eða nýkominn segir maður í þessu samhengi, kominn á skrið eins og fleiri. Náði að halda sér á floti yfir Covidið og árið fram undan leit vel út í bókunum hjá mér. Já já en „life goes on“,“ segir Þorlákur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka