Líkur á öðru eldgosi aukast

Veðurstofa Íslands segir það varasamt fyrir fólk að vera á …
Veðurstofa Íslands segir það varasamt fyrir fólk að vera á ferðinni á svæðinu við Sundhnúkagígaröðina. mbl.is/Kristinn Magnússon

Auknar líkur eru á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi næstu daga samkvæmt tilkynningu frá Veðurstofu Íslands. Líklegast þykir að það gjósi á Sundhnúkagígaröðinni og gæti fyrirvarinn orðið mjög stuttur.

Lítil breyting hefur orðið á landrisi eftir að eldgosinu lauk í gærmorgun. Kvikusöfnun heldur áfram á sama hraða og áður.

Líklegt að kvika hlaupi aftur í kvikuhólf undir Svartsengi

„Í dag má gera ráð fyrir að um tæpir 14 milljónir rúmmetra af kviku hafi bæst við í kvikuhólfið frá því að eldgosið hófst 16. mars,“ segir í tilkynningunni.

„Í fyrri kvikuhlaupum og eldgosum hafa um 8 til 13 milljónir rúmmetra bæst við í kvikuhólfið undir Svartsengi milli atburða áður en kvikan hleypur úr kvikuhólfinu yfir í Sundhnúkagígaröðina. Nú er magn kviku sem bæst hefur við komið upp fyrir efri mörkin, en reynslan frá Kröflueldum sýnir að eftir því sem kvikuhlaupum fjölgar þarf meiri þrýsting til að koma þeim af stað.“

Eru líkur taldar á því að kvika hlaupi aftur úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúkagígaröðina, en nokkur óvissa sé um hvenær nægilegum þrýstingi verði náð til að koma kvikuhlaupinu af stað og að kvika nái til yfirborðs.

„Nýjar gossprungur gætu opnast á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells og hraunflæði gæti orðið sambærilegt við upphafsfasa síðustu eldgosa á Sundhnúkagígaröðinni,“ kemur fram. Fyrirvarinn gæti verið lítill sem enginn.

Varasamt að vera á ferðinni á Sundhnúkagígaröðinni

„Aukin skjálftavirkni hefur verið að mælast á Sundhnúkagígaröðinni síðustu daga. Þessi aukning í skjálftavirkni er líklega merki um spennulosun í og við kvikuganginn á Sundhnúkagígaröðinni vegna aukins kvikuþrýstings í kvikuhólfinu undir Svartsengi.“

Skjálftavirknin suður af Stóra-Skógfelli jókst í nótt og var hún staðbundin eða á svipuðum stað og fyrri kvikuhlaup hafa byrjað.

„Virknin stóð yfir í frekar stuttan tíma, en ekki er hægt að útiloka að þarna hafi lítið magn kviku verið að brjóta sér leið,“ segir í tilkynningunni.

Veðurstofan hefur gefið út uppfært hættumat á segir stofnunin það mjög varasamt fyrir fólk að vera á ferðinni á Sundhnúkagígaröðinni. Jarðskorpan á umbrotasvæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells sé mikið sprungin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert