Snjódýptin er nú mæld á nýjum stað

Höfuðborgin varð alhvít síðastliðinn fimmtudag, í fyrsta sinn á þessum …
Höfuðborgin varð alhvít síðastliðinn fimmtudag, í fyrsta sinn á þessum vetri, sem er seinna en oft áður. mbl.is/Arnþór

Síðasti fimmtudagur var fyrsti alhvíti dagurinn í Reykjavík á þessum vetri. Er þetta rúmlega hálfum mánuði síðar en að meðallagi, samkvæmt upplýsingum Trausta Jónssonar veðurfræðings.

Snjóhulumælingar hafa verið framkvæmdar í Reykjavík í rúma öld, eða samfellt frá 25. janúar 1921. Að þessu sinni urðu þau tímamót að mælt var á nýjum stað, Háuhlíðarreit, öðru nafni Litlu Öskjuhlíð. Um áratugaskeið hefur snjódýpt verið mæld á Veðurstofutúninu við Bústaðaveg klukkan níu að morgni.

Hin opinbera veðurstöð hefur nú verið flutt stuttan spöl, þ.e. frá Veðurstofutúni og upp í Háuhlíðarreit, vestan við vatnsgeyminn. Snjóhuluathugunum hefur því verið hætt á Veðurstofutúni. Á fimmtudagsmorgun mældist snjódýpt einn sentimetri á hinum nýja mælireit og því var alhvítt í Reykjavík þennan morguninn.

Metið er frá árinu 1933

Í fyrra var fyrsti alhvíti dagurinn nokkru seinna á ferðinni en að þessu sinni. Að kvöldi 16. desember hófst áköf snjókoma og taldist því 17. desember fyrsti alhvíti dagurinn í höfuðborginni. Snjódýpt þennan morgun mældist 14 sentimetrar. Aðeins munaði einum degi á metjöfnun. Metið er frá 1933, þegar fyrsti alhvíti dagurinn í Reykjavík var 18. desember. Það met stendur því enn.

Trausti hefur tekið saman ýmsan fróðleik um snjókomuna. Átta sinnum á síðustu rúmum 100 árum hefur ekki orðið alhvítt í Reykjavík fyrr en í desember Hann segir að fyrst svo vitað sé hafi orðið alhvítt að hausti (eða síðsumars) hinn 8. september. Það var árið 1926, reyndar varð bara hvítt í rót sem heitir. Síðast að vori varð alhvítt 16. maí, en flekkótt jörð var einu sinni talin 28. maí.

Ástæðan fyrir flutningi veðurstöðvarinnar/mælireitsins á Háuhlíðarreit er sú að til stendur að nýtt íbúðahverfi verði á næstu árum byggt fyrir austan Veðurstofuna við Bústaðaveg. Áætlað er að þarna geti risið allt að 150 íbúðir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert