Fann sprungu í garðinum

Þorleifur fann sprungu í garðinum sínum í Grindavík fyrr í …
Þorleifur fann sprungu í garðinum sínum í Grindavík fyrr í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Grindvíkingurinn Þorleifur Hjalti Alfreðsson tók eftir ansi óþægilegum vendingum í garðinum sínum fyrr í dag. Hann rölti um á grasinu í garðinum hjá sér og fann jörðina svo síga undan sér.

Þorleifur segist í samtali við mbl.is að hann hafi verið að ganga um lóðina hjá sér og allt í einu hafi engin jörð verið undir honum.

Hann deildi myndböndum á facebook fyrr í dag þar sem hann sýnir hvernig grasið er og svo holuna undir grasinu. Holan virðist vera afar djúp, hún gleypti í það minnsta heilan kúst.

„Það er greinilega orðið sig í lóðinni. Það er greinilega sprunga eftir henni – í gegnum hana,“ segir Þorleifur.

Óttast að það séu fleiri sprungur sem eigi eftir að koma í ljós

Undir hefðbundnum kringumstæðum þá spila krakkarnir hans fótbolta í garðinum. Spurður að því hvort að þetta sé eitthvað sem aðrir Grindvíkingar hafi áhyggjur af, það er að segja að undir grasi eða öðru slíku séu ófundnar sprungur, segir hann svo vera.

„Já ég held að það sé nú það sem flestir óttast, að það séu sprungur sem eiga eftir að koma í ljós hér og þar í bænum,“ segir Þorleifur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert