Geta fengið Elvanse sem fyrsta lyf

Hópur sjúklinga getur fengið Elvanse uppáskrifað sem fyrsta lyf ef …
Hópur sjúklinga getur fengið Elvanse uppáskrifað sem fyrsta lyf ef þeir geta ekki tekið Concerta af einhverjum ástæðum. Ljósmynd/Colourbox

Þeir sjúklingar sem ekki geta tekið lyf sem innihalda efnið metilfenídat geta fengið lyfið Elvanse Adult, sem er með efninu lisdexamfetamín, uppáskrifað sem fyrsta lyf við ADHD. Til þess að geta fengið það þarf þó rökstuðningur frá geðlækni með sérþekkingu ADHD að fylgja.

Þetta kemur fram í skriflegu svari Júlíönu H. Aspelund, sviðsstjóra þjónustusviðs hjá Sjúktryggingum Íslands (SÍ). 

Eins og Morgunblaðið fjallaði um í síðustu viku sagðist formaður Lyfjafræðingafélags Íslands, Sigurbjörg Sæunn Guðmundsdóttir, hafa tekið eftir því að fjöldi þeirra sem eru á Elvanse hafi ekki prófað annað lyf við ADHD, svo sem Concerta eða rítalín.

Skortur frá því snemma í haust

Sagði hún þá staðreynd alvarlega þar sem Elvanse væri eins nálægt því að vera amfetamín og ADHD-lyf komast. Þá benti hún einnig á að kveðið væri um það í reglum um SÍ að sjúklingar þyrftu að hafa prófað að fara á metilfenídatlyf áður en meðferð á Elvanse hæfist. 

Skorur er á Elvanse á Íslandi og hefur hann varað allt frá því snemma í haust. Von er á næstu sendingu 13. desember en lyfin seljast ítrekað upp þegar þau berast til landsins. Það hafa líka samheitalyf og undanþágulyf gert. 

Hlutfall virðist eðlilegt

Í svari SÍ til mbl.is segir Júlíana að við athugun virðist hlutfall þeirra sem fá uppáskrifað Elvanse, án þess að hafa fyrst fengið Concerta, vera eðlilegt. Segir í svarinu að almennt sé hægt að segja að sjúklingar sem greindir eru með ADHD fari annað hvort Concerta eða rítalín í upphafi meðferðar.

„Það er þó hópur sjúklinga sem fær strax skrifað upp á Elvanse, sem er lisdexamfetamín, og er það þá vegna þess að þeir geta ekki tekið Concerta af einhverjum ástæðum, t.d. vegna ofnæmis, annarra sjúkdóma eða lyfja sem viðkomandi tekur. Þá er jafnframt óskað eftir rökstuðningi ef hefja á meðferð með Elvanse, fyrir einstakling sem hefur sögu um neyslu fíkniefna eða misnotkun lyfja/áfengis.“

Sjö þúsund manns eru á Elvanse á Íslandi í dag, um þriðjungur af þeim rúmlega 20 þúsundum sem eru á einhverskonar lyfjum við ADHD. 

Óskað eftir rökstuðningi lækna

Sigurbjörg Sæunn kallaði eftir skýrari reglum er varðar ADHD-lyf í samtali við Morgunblaðið og Karl Reyn­ir Ein­ars­son, formaður Geðlækna­fé­lags Íslands, sagði að mögulega vantaði betra eftirlit með sjúklingum sem eiga sögu um fíknisjúkdóma. 

Spurð hvort það vanti meira aðhald af hálfu SÍ vegna skammtastærða bendir Júlíana á að SÍ kalli eftir frekari upplýsingum ef um óvenju háar skammtastærðir sé að ræða.

„Jafnframt þarf læknir að rökstyðja umsókn sína ef verið að nota mörg svefn-, verkja- og kvíðastillandi lyf. Umsóknum um endurnýjun hefur verið synjað ef ekki fæst tilhlýðilegur rökstuðningur fyrir því að lyfjaskammtarnir séu nauðsynlegir. Eftirlit Sjúkratrygginga með lyfjaskömmtum er í raun fjárhagslegs eðlis og felst í því að skoða hvort verið sé að greiða fyrir óþarflega mikið af lyfjum fyrir sjúkling og hvort að notkunin megi teljast eðlileg,“ segir í svarinu.

Uppfært kl. 13.10, 28. nóvember:

Áður kom fram að sending á Elvanse myndi berast til landsins í þessari viku. Það er ekki rétt, heldur er von á sendingu 13. desember. Fréttin hefur verið leiðrétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert