„Hvers konar skilaboð eru þetta til launafólks“

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, skaut föstum skotum á aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar fyrir fólk á húsnæðismarkaði.

Kristrún steig fyrst í pontu Alþingis í dag undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra. Til svara var Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.

„Hvenær er rétti tíminn fyrir róttækar aðgerðir á húsnæðismarkaði, ef ekki núna? Núna er íbúðaverð aftur á uppleið, verðbólga há og vextir allt of háir. En hvað er ríkisstjórnin að gera til að milda höggið fyrir venjulegt fólk á húsnæðismarkaði? Engin leigubremsa, engin stjórn á Airbnb, ekkert frumvarp frá hæstvirtum innviðaráðherra ennþá til að styrkja réttarstöðu leigjenda þrátt fyrir margítrekuð loforð frá gerð síðustu kjarasamninga,“ sagði Kristrún á Alþingi í dag.

Eru að henda 5 þúsund manns út úr vaxtabótarkerfinu

Kristrún sagði að það versta á þessum tímapunkti er að nú hafi ríkisstjórnin kynnt fjárlög þar sem húsnæðisbætur lækka og vaxtabætur lækki um 25% á milli ára. Hún sagði að ríkisstjórnin sé að henda 5.000 manns út úr vaxtabótarkerfinu samkvæmt fjárlögum næsta árs og það stefni í að stjórnin geri engar breytingar þar á.

„Hvers konar skilaboð eru þetta til launafólks í aðdraganda kjarasamninga núna í janúar? Á erfiðum tímum þegar þrengist um á húsnæðismarkaði er beinlínis ótrúlegt að ríkisstjórnin sé að lækka húsnæðisbætur til leigjenda og henda 5.000 manns út úr vaxtabótakerfinu,“ sagði Kristrún.

Hefur starfsreynslu úr Seðlabankanum

„Eins og háttvirtur þingmaður veit hefur ríkisstjórnin að sjálfsögðu og stjórnvöld, og þegar ég segi stjórnvöld þá tala ég auðvitað líka um Seðlabankann, fylgst náið með því hvað er að gerast á húsnæðismarkaðnum.

Ég veit að háttvirtur þingmaður, sem hefur meira að segja, ef ég man rétt, starfsreynslu úr Seðlabankanum, fylgist náið með því sem þar gerist og þeim gögnum sem þau leggja fram og hafa verið að greina, að við séum þrátt fyrir allt búin að komast býsna vel frá því ástandi sem verið hefur. En á síðustu mánuðum hafa hlutirnir verið að versna og við þurfum að vera á tánum gagnvart því sem næst gerist,“ sagði Sigurður Ingi meðal annars í svari sínu til Kristrúnar.

Sigurður sagði að verið sé að byggja 800 íbúðir á þessu ári, 1.000 á því næsta og 1.000 á þar næsta ári.

„Mikilvægast af öllu, og því er ríkisstjórnin svo sannarlega að vinna að, að tryggja að hér séu skynsamleg fjárlög lögð fram sem styðja við peningastefnuna til þess að ná tökum á að verðbólgan fari niður og vextirnir fari niður. Það er langsamlega stærsti ávinningurinn fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu og það held ég að við séum öll sammála um,“ sagði Sigurður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert