Ekki á sömu þotu og venjulega voru notaðar

Hér má sjá mynd úr skýrslu RNSA frá slysstað.
Hér má sjá mynd úr skýrslu RNSA frá slysstað. Ljósmynd/RNSA

Nemandi sem lést í slysi við Framhaldsskólann á Laugum í fyrra var á annars konar þotu en almennt voru notaðar af nemendum þegar hann rann í veg fyrir bíl með fyrrgreindum afleiðingum. Tók hann þátt í áralangri hefð við skólann, en þotan var ekki ein þeirra sem skólinn skaffaði.

Þá hefur ekki  verið unnin umferðaröryggisáætlun fyrir Þingeyjarsveit, sem talin er mikilvægt skref í að ná markmiðum stjórnvalda í umferðaröryggismálum. Þá hafa stjórnendur Framhaldsskólans á Laugum ekki unnið skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði fyrir skólann eins og kveðið er á um í lögum.

Þetta kemur fram í skýrslu Rannsóknarnefndar samgöngumála um banaslys sem varð við skólann í febrúar á síðasta ári. 

Nítján ára nemandi við skólann lést þegar fólksbifreið var ekið á hann. Hópur nemenda úr skólanum ásamt námsráðgjafa voru úti að renna sér á rassasnjóþotum á skólalóðinni þegar slysið varð. 

Nemandinn sem lést hafði rennt sér niður bratta brekku vestan við skólann og lent upp á Austurhlíðarvegi þar sem hann varð fyrir bifreið.

Nemandinn lést af völdum fjöláverka. Tveir voru í bílnum, ökumaður og farþegi, og sluppu þeir ómeiddir úr slysinu.

Ekkert athugavert kom í ljós við skoðun

Ekkert við skoðunina á bifreiðinni, sem framkvæmd var eftir slysið, benti til þess að rekja mætti orsakir slyssins til ástands hennar. Bifreiðin var fimm dyra, díselknúin með fjórhjólasídrifi og hemlalæsivörn, og með gilda skoðun þegar slysið átti sér stað.

Hámarkshraði á veginum er 50 km/klst og var bifreiðinni ekið á um 20-40 km/klst hraða samkvæmt framburði vitna og ökumanns.

Sól var lágt á lofti og skein til norðurs á móti akstursstefnu bifreiðarinnar. Kveðst ökumaður ekki hafa séð nemandann þar sem hann renndi sér niður brekkuna. Sá hann snjó þyrlast upp neðst í brekkunni um fimm metra frá bílnum.

í skýrslu RNSA segir að ökumaður hafi haft skamman tíma til að bregðast við áður en slysið varð.

Áratugahefð 

Eins og áður kom fram var hópur nemenda ásamt námsráðgjafa að renna sér á rassasnjóþotum þegar slysið varð. Áralöng hefði er fyrir því að nemendur renni sér niður brekkuna þar sem slysið varð.

Flestir nemendur voru á þotum frá skólanum sem, að því er fram kemur í skýrslunni, hafa ávallt stöðvað í grunnri vatnsrás sem liggur meðfram veginum og ekki farið upp á veginn.

Nemandinn sem lést var þó á snjóþotu af annarri gerð sem var í eigu nemanda. Fór hún hraðar og stöðvaðist ekki í vatnsrásinni líkt og rassasnjóþoturnar gerðu.

Leggja til úrbætur

Í skýrslu RNSA segir að stjórnendur skólans hafi ekki unnið skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði fyrir skólann eins og kveðið er á um í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 45/1980.

Þá hafi eftirgrennslan RNSA einnig leitt í ljós að ekki hafi verið unnin umferðaröryggisáætlun fyrir Þingeyjarsveit.

„Umferðaröryggisáætlanir eru mikilvæg skref í að ná markmiðum stjórnvalda í umferðaröryggismálum. Helstu markmið umferðaröryggisáætlana eru að draga úr fjölda látinna og slasaðra vegfarenda.“

Beinir nefndin því til stjórnenda skólans að framkvæma áhættumat og öryggisáætlun fyrir starfsemi skólans og til sveitarfélagsins Þingeyjarsveitar að gera umferðaröryggisáætlun fyrir sveitarfélagið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert